Forsætisráðherra og framtíðarnefnd boða til málþings um breytingar, áskoranir og tækifæri á ýmsum sviðum samfélagsins eftir COVID-19. Þekktir, alþjóðlegir fyrirlesarar taka þátt í málþinginu sem fer fram með rafrænum hætti miðvikudaginn 30. september.
Áhrif COVID-19 á líf okkar og störf eiga eftir að vara í mörg ár. Heimsfaraldurinn getur virkað sem hraðall á miklar samfélagsbreytingar sem flest samfélög heimsins standa frammi fyrir. Tækifærin felast ekki síst í því að nýta uppbrotið til grænnar umbyltingar á meðan að áskorunin verður að verjast því að ójöfnuður og félagslegt óréttlæti aukist. Fyrirlesarar málþingsins munu takast á við hvaða grundvallarbreytingar þarf að gera til að auka réttlæti og styrkja samfélagið til að fást við breytingarnar framundan.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, opnar málþingið og Smári McCarthy formaður framtíðarnefndar flytur erindi og stýrir þinginu. Aðrir fyrirlesarar eru þau Marina Gorbis, rithöfundur og framkvæmdastjóri Institute for the Future (IFTF), Jamie Susskind, lögfræðingur og höfundar bókarinnar Future Politics: Living Together in a World Transformed by Tech og Izabella Kaminska ritstjóri Alphaville hjá Financial Times.
Málþingið stendur frá kl. 08:30-10:15 og fer fram á ensku. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Streymt verður beint frá málþinginu en mikilvægt er að þátttakendur skrái sig svo að upplýsingar berist um streymið.
Aðsent