Ævintýri og störf Andrésar Magnússonar, skurðlæknis á Siglufirði sem nýverið lét af störfum eftir 40 ára starf.
Eftir 40 ára farsælan starfsferil er komið að starfslokum hjá Andrési Magnússyni, skurðlækni. Andrés hóf störf á Siglufirði árið 1985 og starfaði þar nær óslitið þangað til í október síðastliðnum.
„Ég er fæddur í miðjum skarkala Reykjavíkur við hliðina á Austurbæjarbíó, en ég var sem barn á Eyrarbakka og fannst gott að vera í litlu bæjarfélagi sem hélt vel utan um mann. Ég ákvað eftir sérnám í skurðlækningum í Svíþjóð að fara heim aftur, en þá var einmitt verið að leita að lækni á Siglufjörð. Ég gekk mikið á fjöll og þau einfaldlega toguðu í mig, og veðrið líka eins furðulega og það kann að hljóma.“ Og úr varð að Andrés flutti til Siglufjarðar.
„Siglfirðingar kunna að taka á móti fólki og bjóða það velkomið. Þeir eru vanir því, eins og síldarárin eru dæmi um. Á vinnustaðnum hefur svo alltaf verið frábær starfsandi, gott samstarfsfólk og mér liðið afar vel, sem skýrir líklega af hverju ég varð svona lengi. Ég sá líka hversu mikil tilbreyting fylgdi því að vera sveitalæknir, ekkert verkefni var eins og alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi. Vaktir geta vissulega verið krefjandi í dreifbýli, en maður lærir að lifa með því, alveg eins og veðrinu.“

Miklar breytingar yfir 40 ára tímabil
Tæknilegar breytingar hafa verið miklar á þessum tíma en samgöngur hafa líka breyst mikið. Áður voru tvö flug á dag frá Siglufirði, annað til Reykjavíkur og hitt til Akureyrar en vegasamgöngur gátu oft verið áskorun á veturna. „Veðrið var öðruvísi þá, miklu meiri snjókoma, lengri óveðurskaflar og ófærð eftir því. Við gátum verið innilokuð í heila viku jafnvel og þurftum þá að bjarga málum á staðnum, minni sem stærri. Lengsta ferðin sem við þurftum að fara með sjúkrabíl til Akureyrar tók sextán tíma í brjáluðu veðri og með sjúkling í bílnum. En eftir að göngin komu yfir til Ólafsfjarðar 2010 þá batnaði aðgengi til Akureyrar og minna mál að fara á milli en áður.“
Stærsta tæknibyltingin, að sögn Andrésar, var tilkoma sneiðmyndatækisins upp úr 1990 sem var staðsett á Akureyri. „Það var ótrúlegur munur að geta séð strax með einni sneiðmynd hvað amaði að. Áður þurftum við að fylgjast með líðan sjúklings og, ef ekkert annað dugði, opna og sjá hvað væri í gangi.“
Þá hefur ferðamönnum fjölgað mikið í gegnum árin sem hefur áhrif á heilbrigðiskerfið. „Ferðafólki hefur fjölgað mikið á mínum tíma en innviðir heilbrigðisþjónustunnar hafa í raun ekki gert ráð fyrir því álagi sem fylgir auknum ferðamannastraumi. Þessi atvik geta verið tímafrek þar sem nýskrá þarf fólk inn í kerfið en svo eru lagaleg málefni, tryggingar og líka tungumálið sem geta flækt málin mikið. Þetta eru atvik sem taka langan tíma og geta valdið aukaálagi.“

Ævintýri á úthafi
Önnur stór tæknibreyting var þegar farsímarnir komu í notkun en áður var notast við píptæki. Þá kom neyðarlínan ekki til sögunnar fyrr en 1996, en loftskeytastöð var notuð fyrir fjarskipti og neyðartilkynningar fram að því. “Loftskeytastöð á staðnum var í sambandi við öll skip norðan Íslands en í gegnum hana fengum við fyrirspurnir um aðstoð frá skipshöfnum, íslenskum sem erlendum og gáfum ráðgjöf sem fyrsti hlekkur.”
Andrés á eftirminnilega sögu frá þessum tíma. Kvöld eitt í afar vondu veðri barst beiðni frá erlendum togara við Kolbeinsey þar sem stórslys hafði orðið. „Varðskipið Ægir heyrði samskiptin og bauðst til að sækja mig. Þegar ég mætti niður á höfn með tvær svartar töskur og sá stórt, grátt skip senda gúmmíbát eftir mér, þá var ekki frá því að þetta minnti smá á senu úr James Bond, sérlegum njósnara hennar hátignar. Sá ljómi hvarf nú samt fljótt, því ég varð svo sjóveikur að ég gubbaði við fæturna á skipstjóranum, sem setti mig beint í koju. Þegar við komum loks á staðinn var mér troðið í flotgalla og hent í bát yfir á togarann. Þrátt fyrir hrikalega sjóveiki tókst mér að setja upp vökva, lyf og súrefni en þurfti svo sjálfur umönnun í koju, þar sem vélstjórinn hélt um ennið á mér og gaf mér kók á milli þess sem ég reyndi að leiðbeina um umönnun þess slasaða. Þegar við komum í land mátt víst ekki sjá hvor okkar væri verr haldinn, en þetta fór allt vel.“

Virk hlustun og samtal hvað mikilvægast
Andrés gengur afar sáttur frá borði og nýtur nú lífsins ásamt eiginkonu sinni, Siglfirðingnum Margréti Guðmundsdóttir, þroskaþjálfa. Þau eiga tvo syni saman en Andrés á að auki þrjár dætur frá fyrra sambandi og barnabörnin eru orðin níu talsins.
„Ég lít mjög ánægður og stoltur til baka á þennan tíma og er hvað mest þakklátur fyrir gott samstarfsfólk í gegnum tíðina. Einn stærsti lærdómurinn sem ég tek frá þessu er mikilvægi þess að líða vel á sínum vinnustað, mikilvægi þess að tala saman en ekki síður að vera dugleg að hlusta. Hlusta á skjólstæðinga okkar og samstarfsfólk sem þekkir skjólstæðinga oft betur en við sjálf.“
Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Heilsugæslan í Fjallabyggð vilja færa Andrési og Margréti hjartanlegar þakkir fyrir óeigingjarnt og farsælt starf í þágu samfélagsins í öll þessi ár. Megi framtíðin bera þeim bæði gæfu og gleði.

Á forsíðumynd er Andrés við jeppann sem hann keyrði fyrst 12 ára gamall.
Myndir og heimild/Heilbrigðisstofnun Norðurlands




