Slökkvilið Fjallabyggðar heimsótti báða leikskólana í Fjallabyggð, Leikskála og Leikhóla í vikunni og er það reglubundin heimsókn þar sem rætt er við nemendur í elstu deild.
Síðastliðið haust fengu börnin kynningu á mikilvægi brunavarna og fengu þau það hlutverk í vetur að fylgjast með brunavörnum í sínum leikskólum sem þau hafa gert samviskusamlega. Í heimsókninni voru þau svo útskrifuð sem aðstoðarmenn slökkviliðs og fengu viðurkenningu þess efnis.
Slökkviliðið notaði tækifærið og boðaði rýmingaræfingu í báðum leikskólum þar sem starfsmenn fengu það hlutverk að rýma leikskólann og tryggja öryggi barnanna. Æfingarnar gengu vel og eru allir reynslunni ríkari.
Að sjálfsögðu var svo öllum börnum á báðum leikskólunum boðið að sulla í vatni í einum af vatnsbogum slökkviliðsins.
Myndir og heimild/Slökkvilið Fjallabyggðar