Í síðasta tölublaði Norðurslóðar var viðtal við starfsmann Eigna- og framkvæmdadeildar (EF-deild) Dalvíkurbyggðar. Þar lýsir hann því að hann sé langþreyttur á þeim breytingum sem hafa átt sér stað á framkvæmdasviði. Það er alveg hægt að taka undir ýmislegt sem er gagnrýnt í þessu viðtali, annað þarfnast útskýringa og ætla ég því að fara stuttlega yfir málin eins og þau snúa að stjórnun sveitarfélagsins.

Á síðasta kjörtímabili voru lögð drög að sameiningu umhverfis- og tæknisviðs og veitu- og hafnasviðs í eitt svið, framkvæmdasvið. Skipulagsbreytingin var tekin í tveimur áföngum á þessu kjörtímabili. Vorið 2019 var EF-deildin stofnuð og í vor lögðust gömlu sviðin tvö af og framkvæmdasviðið var stofnað. Meginmarkmið þessara skipulagsbreytinga var og er að auka skilvirkni í stjórnkerfinu og einfalda það, bæta þjónustu, samhæfa rekstur og starfsemi þeirra málaflokka sem undir Framkvæmdasvið heyra og samnýta krafta þvert á verkefni þar sem það er hægt.

Í fyrra áfanga skipulagsbreytinga var fækkað um 1,3 stöðugildi en gefið svigrúm til að nýta allt að 50% stöðu í störf í Dalvíkurskóla sem heyrðu áður undir húsvarðarstarf en fluttust ekki undir EF-deildina. Sú breyting hvað varðar húsvarðarverkefni hefur tekið lengstan tíma og er ekki að koma að fullu til framkvæmda fyrr en núna við ráðningu starfsmanns í 63% stöðu skólaliða. Það er alveg réttmæt gagnrýni að tíminn sem tók að ljúka endurskipulagningu húsvarðarverkefna var allt of langur og hefði verið hægt að ljúka að ósekju í fyrrahaust. Mér þykir miður að það hafi tekið svona langan tíma og tekið allt of mikla orku frá starfsfólki, bæði í Dalvíkurskóla og hjá EF-deild en því verður ekki breytt eftir á. Vonandi skapast friður um málið með þessari nýráðningu og starfslýsingu sem á að dekka þau störf sem stóðu út af við niðurlagningu stöðu húsvarðar.

Við síðari breytinguna varð ekki fækkun á starfsfólki eins og ranglega er sagt í viðtalinu. Tveir sviðsstjórar létu af störfum en í staðinn var ráðinn sviðsstjóri og skipulags- og tæknifulltrúi. Þá er sveitarstjórn í fjárhagsáætlunarvinnu 2022 að ræða nauðsyn þess að bæta við einum starfsmanni á Framkvæmdasviði vegna aukinna starfa á Veitum. Þau felast m.a. í fjölgun dælustöðva, eftirlit með varaafli, eftirlit með vélbúnaði, auknum viðhaldsframkvæmdum og reglulegu eftirliti nýrra fráveitustöðva sem eru undir ströngum reglugerðum hvað varðar umgengni starfsmanna.

Starfsmannaveltan á EF-deild hefur verið of mikil og verst er bilið sem hefur myndast á milli þess sem einn hættir og annar tekur við. Sjaldnast hefur orðið einhver yfirfærsla á þekkingu eða verkefnum og því hafa nýráðnir starfsmenn þurft að læra á nýju störfin með aðstoð þeirra sem eftir eru og þannig tekið frá þeim dýrmætan tíma við vinnu. Þannig hafa í tvígang liðið nokkrir mánuðir frá því starfsmenn hafa hætt og þar til nýir hafa tekið við. Það er ekki gott því þá eykst vinnuálagið á þeim sem eftir sitja. Við erum enn að horfa á breytingar hjá EF-deildinni en tvö störf eru í auglýsingu og rennur umsóknarfrestur út þann 8. desember. Vonandi verður hægt að manna deildina fljótt og vel með góðu fólki og skapa ró um starfsemina. Það er alltaf erfitt að sjá á eftir góðu starfsfólki en sé komin þreyta í menn eða löngun eftir öðrum starfsvettvangi er betur hætt en áfram haldið.

Aðrar deildir Framkvæmdasviðs eru fullmannaðar og þar hefur til lánsins ekki verið nein starfsmannabreyting síðustu ár. Verkefni eiga almennt ekki að þurfa að hlaðast upp á Framkvæmdasviði því gert er ráð fyrir aðkeyptri þjónustu í fjárhagsáætlun til að mæta kostnaði við verkefni í sveitarfélaginu og viðhald húseigna. Auðvitað eru toppar í starfseminni á því sviði eins og öðrum en það koma líka rólegri tímar inn á milli eins og fram kemur í viðtalinu.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.

Skoða á vef Dalvíkurbyggðar