Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga og útsvarsprósentum sveitarfélaga um áramótin í kjölfar þess að samþykktur var viðauki við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 23. janúar 2010, um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaga. Viðaukinn felur í sér tímabundna niðurstöðu um fjármögnun þjónustunnar en hámarksútsvar verður hækkað og tekjuskattur einstaklinga lækkaður jafn mikið samhliða. Aðgerðin er því hlutlaus fyrir skattgreiðendur að því gefnu að sveitarfélög nýti sér hina auknu heimild til að hækka útsvar.

Lög nr. 90/2003 um tekjuskatt einstaklinga breytast á þann veg að öll þrep tekjuskatts lækka um 0,22 prósentustig og lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga á þann veg að heimild til álagningar útsvars hækkar um 0,22 prósentustig og verður því 14,74% eftir breytinguna.

Til viðbótar fyrrgreindum breytingum skal samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt í upphafi hvers árs hækka persónuafslátt og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði að viðbættri hækkun vegna aukinnar framleiðni. Miðað er við 1% árlega aukningu framleiðni og er það mat tekið til endurskoðunar á 5 ára fresti, næst fyrir áramótin 2027-2028. Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 9,6% á 12 mánaða tímabili. Heildarhækkun persónuafsláttar og þrepamarka verður því 10,7%.

Með fyrirvara um að endanlegt meðalútsvar liggur ekki fyrir verða skattprósentur, persónuafsláttur og þrepamörk eftirfarandi árið 2023.

Mynd/Hari