Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra afhenti í gær landbúnaðarverðlaunin fyrir árið 2025 til bændanna á Brúnastöðum í Fljótum í Skagafirði, Stefaníu Hjördísar Leifsdóttir og Jóhannesar Ríkarðssonar.
„Framlag Brúnastaða til íslensks landbúnaðar er fjölþætt og áhrifamikið“ sagði ráðherra við afhendingu verðlaunanna. „Þau Stefanía og Jóhannes hafa ekki aðeins aukið fjölbreytni í matvælaframleiðslu heldur einnig verið fyrirmynd í umhverfisstefnu, samfélagslegri ábyrgð og nýsköpun. Með sterkri framtíðarsýn stefna þau á að halda áfram að þróa starfsemi sína í átt að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi, með áherslu á að tengja landbúnað, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á einstakan hátt. Bændurnir á Brúnastöðum eru því verðugir handhafar landbúnaðarverðlauna atvinnuvegaráðuneytisins fyrir árið 2025.“

Brúnastaðir sameina hefðbundinn íslenskan búskap við nýsköpun, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á einstakan hátt. Á býlinu eru 800 vetrarfóðraðar ær og 80 geitur auk allskyns annarra dýra sem eru aðalpersónur húsdýragarðsins á bænum á sumrin. Bændurnir þar eru einnig sterkir þátttakendur í samfélagslegri ábyrgð og menntun, þar sem þau hafa m.a. tekið á móti nemum frá Landbúnaðarskóla Grænlands og verið fósturforeldrar í 27 ár.
Brúnastaðir hafa skapað sér sérstöðu á Íslandi með framleiðslu á geita- og sauðamjólkurvörum. Árið 2020 hófu þau handverksostagerð og urðu þar með fyrsta býlið á Íslandi til að framleiða eigin geitaost. Þessi nýsköpun hefur vakið athygli bæði innanlands og erlendis og þau voru m.a. tilnefnd til Embla Nordic Food Awards árið 2022 fyrir framlag sitt til norrænnar matargerðar. Ostagerð Brúnastaða sker sig úr með áherslu á gæði, handverk og sjálfbærni, en öll framleiðsla þeirra er unnin á bænum með áherslu á náttúrulegar aðferðir og lágmarks umhverfisáhrif. Brúnastaðir leggja mikla áherslu á sjálfbæran búskap og umhverfisvernd. Þau hafa plantað yfir 70.000 trjám á 32 hektara svæði til að stuðla að bindingu kolefnis og bæta vistkerfi svæðisins. Þau hafa einnig verið þátttakendur í verkefninu loftslagsvænn landbúnaður.
Bændur á Brúnastöðum hafa jafnframt verið ötulir í að efla tengingu milli bænda og samfélagsins. Þau bjóða reglulega upp á heimsóknir fyrir skóla, fjölskyldur og ferðamenn þar sem gestir geta fræðst um búskap, matvælaframleiðslu og íslenska náttúru. Gæludýragarðurinn á bænum er vinsæll meðal barna og fullorðinna, þar sem gestir fá tækifæri til að komast í návígi við íslensk húsdýr og kynnast fyrirmyndar búrekstri.
Svo skemmtilega vill til að foreldrar Stefaníu Hjördísar, þau Leifur Þórarinsson og Kristín Bára Ólafsdóttir, voru einnig handhafar landbúnaðarverðlaunanna árið 2001 fyrir búskap sinn í Keldudal í Hegranesi.
Verðlaunagripurinn ber heitið „Biðukolla“ og er sérhannaður fyrir landbúnaðarverðlaunin af Matthíasi Rúnari Sigurðssyni myndhöggvara. Biðukollan er táknmynd hringrásarinnar sem er undirstaða sjálfbærs landbúnaðar. Eftir að hafa blómstrað að sumri dreifir biðukollan fræjum sínum um víðan völl með vindinum. Fræin eru þannig vísbending um þá möguleika og tækifæri til vaxtar sem framtíðin ber í skauti sér.
Um er að ræða 24 cm grip úr bronsi sem verið er að leggja lokahönd á ytra og var verðlaunahöfum afhent mynd af gripnum þangað til Biðukollan berst til landsins.
Myndir/aðsendar