Nýjasta dagbókarfærsla Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn.
Vikan 10.-16. mars 2025
Fyrsta heila vinnuvikan eftir frí í meira eða minna í rúmar tvær vikur. Það var því af nógu að taka við að hreinsa upp pósta og erindi. Vildi til að vikan var fundalétt. Hún hófst á fundi framkvæmdaráðs að vanda á mánudagsmorgninum. Að því loknu tók við skrifborðsvinna, samþykkt reikninga, skoðun á innkomnum málum á meðan ég var í fríi, ýmis samskipti, skipulagning Reykjavíkurferðar í komandi viku í tengslum við landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, gerð samninga vegna nýlegrar úthlutunar úr atvinnu- og nýsköpunarsjóði, vinna við umsókn í styrkvegapott Vegagerðarinnar og eitt og annað.
Þriðjudagurinn var jafnframt skrifborðsdagur, meðal verkefna var umsókn um starfsleyfi fyrir Félagsheimilið Hvammstanga sem kallaði á nokkra gagnasöfnun og grúsk, áframhaldandi vinna við styrkvegaumsókn, yfirferð gagna vegna slita á Bústað hses. sem átti íbúðir á Lindarvegi sem nú eru komnar í eigu Brákar, samskipti við Vegagerðina vegna sjóvarna á Borðeyri en landbrot þar var óvenju mikið í vetur og afar brýnt að unnið verði að sjóvörnum sem allra fyrst. Ráðast átti í það verkefni síðasta haust en úr því varð því miður ekki en verkið er nú komið í hönnun og verður ráðist í það í haust. Ég yfirfór jafnframt niðurstöðu hugmyndavinnu á stjórnendadegi fyrir skömmu og yfirfór innsendar hugmyndir starfsmanna sveitarfélagsins um uppskriftir að góðri geðheilsu í tengslum við geðheilsuátakið sem hefur staðið í nokkrar vikur. Fjöldi hugmynda barst og setti ég upp veggspjald með hugmyndum.

Uppskriftir starfsmanna að góðri geðheilsu. Veggspjöldin verða hengd upp í stofnunum sveitarfélagsins til áminningar um að huga að geðheilsunni.
Endurskoðendur sveitarfélagsins voru við vinnu við uppgjör síðasta árs á þriðjudeginum en þau koma og vinna hér að minnsta kosti einn dag á meðan á endurskoðun stendur til að hafa gott aðgengi að gögnum og til að rekja garnirnar úr sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs. Endurskoðun miðar vel og verður ársreikningur tilbúinn til fyrri umræðu samkvæmt áætlun fyrir reglubundinn sveitarstjórnarfund í apríl. Undirbúningur sveitarstjórnarfundar tók líka einhvern tíma þennan daginn, frágangur fundarboðs, undirbúningur bókana og skrif skýrslu sveitarstjóra sem ávallt er flutt munnlega á fundunum. Boða þarf sveitarstjórnarfundi með að minnsta kosti tveggja sólarhringa fyrirvara samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins.
Miðvikudagurinn hófst á dagbókarskrifum fyrir dagana áður en ég fór í frí og birtingu færslunnar. Síðan hélt ég áfram úrvinnslu úr stjórnendadegi og hóf undirbúning stjórnendafundar komandi viku en eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi funda stjórnendur sveitarfélagsins mánaðarlega. Skrif frétta á heimasíðu fengu nokkra athygli, sem og styrkvegaumsóknin títtnefnda. Undirbúningur suðurferðar komandi viku hélt áfram en ég mun ásamt formanni byggðarráðs og oddvita sitja nokkra fundi deginum fyrir þing til að nýta ferðina, t.d. með Landsneti og þingmönnum kjördæmisins. Dagurinn flaug við ýmis skrifborðsverkefni og tiltekt á skrifstofunni en við erum í framkvæmdum í Ráðhúsinu við að setja upp hljóðdempandi plötur á skrifstofur til að laga hljóðvist og minnka óm á milli rýma sem hefur verið töluverður. Ég nýtti tækifærið og breytti uppsetningu skrifstofu minnar og því fylgdi nokkur tiltekt.
Fimmtudagurinn var nær undirlagður undir sveitarstjórnarfund. Ég fundaði þó um morguninn ásamt skipulags og byggingarfulltúa með byggingaraðila sem hyggst reisa fjölbýlishús á lóðinni Norðurbraut 15. Áttum við gott spjall um verkefnið sem unnið er í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í tengslum við samkomulag sem undirritað var á síðasta ári um íbúðauppbyggingu á Hvammstanga til að mæta íbúðaþörf sem fram kemur í húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem endurnýjuð er árlega. Samkvæmt því samkomulagi verður byggður fjöldi íbúða á næstu árum sem er afar þarft verk. Fyrsta verkefnið verður bygging leiguíbúða í eigu Brákar íbúðafélags hses. en í framhaldinu verða byggð hús þar sem hluti íbúða verður til útleigu og hluti fer í almenna sölu. Við byrjum á þessu húsi og metum svo stöðuna um næstu skref. Í kjölfar fundarins tók ég saman upplýsingar fyrir byggingaraðilann og sendi honum. Eftir hádegið tók við undirbúningsfundur meirihluta sveitarstjórnar, í kjölfar hans undirbúningsfundur meiri- og minnihluta og að því loknu sveitarstjórnarfundurinn sjálfur. Hann var ekki langur enda ekki mörg mál sem þörfnuðust sérstakrar umræðu. Fundargerðin er aðgengileg hér.
Föstudagurinn hófst á vikulegum fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Við fórum yfir dagskrá byggðarráðsfundar komandi viku ásamt því að ræða helstu verkefni. Í kjölfar þess fundar sat ég fjarfund á vegum míns gamla vinnustaðar Dale Carnegie með Helga Rúnari Óskarssyni forstjóra 66 Norður en hann var eigandi Dale lengst af meðan ég starfaði þar. Umræðuefni fundarins var uppbygging liðsheildar og nýsköpun. Afar hvetjandi fundur eins og Helga Rúnari er einum lagið. Að því loknu tók við fundur með Sigurði Líndal starfsmanns Eims um ýmis tækifæri í sveitarfélaginu. Því næst fundaði ég með fulltrúa æskulýðsfélaga Þjóðkirkjunnar en til stendur að halda landsmót æskulýðsfélaga á Hvammstanga á næsta ári. Það sem eftir lifði dags sinnti ég skrifborðsverkefnum, meðal annars frágangi og innsendingu á styrkvegaumsókn til Vegagerðarinnar. Því miður hefur sveitarfélagið borið skarðan hlut frá borði í styrkjum til viðhalds styrkvega undanfarin ár. Mótframlag sveitarfélagsins var hækkað um 39% frá fyrra ári í fjárhagsáætlun þessa árs og er nú 2,5 milljónir. Það er von okkar að það verði til þess að vegagerðin auki jafnframt sitt framlag því viðhaldsþörf á vegum fram til heiða er orðin mjög mikil.
Ég leit við í vinnunni á laugardeginum til að halda áfram tiltekt á skrifstofunni og að henni lokinni greip ég í nokkur verkefni sem gott er að fá næði til að sinna, m.a. dagbókarskrifum. Ég hafði því gott útsýni yfir fyrsta vorboðan, áburðarskipið, sem lagðist að bryggju rétt fyrir hádegið. Dýptarmælingar Vegagerðarinnar fóru fram fyrir réttri viku og sýndu að ástandið var betra en við höfðum þorað að vona og greið leið fyrir vorboðana. Útboð á dýpkun hafnarinnar fer svo af stað eftir helgina og vonandi verður ráðist í hana sem fyrst í sumar.