Þann 2. júní 1934 reið mikill jarðskjálfti yfir Dalvík og nærsveitir.
Talið er að skjálftinn hafi verið um 6,3 á richter og að upptök hans hafi verið undir hafsbotninum rétt utan við Dalvík. Á Dalvíkurbeltinu svo kallaða, Dalvíkurbeltið er ekki mjög virkt jarðskjálftabelti og eru þessar jarðhræringar þær einu sem talið eru hafa komið frá þessu belti á sögulegum tíma.
Gríðarlegar skemmdir urðu á húsum og mannvirkjum á Dalvík og nágrenni og má segja að í þorpinu hafi nánast hvert einasta hús stórskemmst eða eyðilagst í hamförunum. Þykir ganga kraftaverki næst að ekki urðu slys á fólki í þessum mestu náttúruhamförum sem orðið hafa á sögulegri tíð hér um slóðir. Nokkrir snarpir eftirskjálftar fylgdu aðalskjálftanum og létu margir íbúar þorpsins fyrir berast í tjöldum fram eftir sumri bæði af ótta við eftirskjálfta og vegna þess að húsnæði var óíbúðarhæft.
Stjórnvöld í landinu brugðust skjótt við með að meta og bæta skaðann og stofnuð var jarðskjálftanefnd, nefndin útvegaði íbúum 32 tjöld flest frá Sauðárkróki og Akureyri, keyptar voru 30 seglábreiður sem þjónuðu tilgangi tjalda ásamt því að timburskýli voru reist ásamt geymslu húsum sem voru hólfuð niður fyrir fjölskyldur, byggt var bráðabirgða eldhús í barnaskólanum (gamli skólinn) þar sem fólk gat komið og eldað ofan í fjölskyldurnar sínar. Ríkið útvegaði svo nægilegt fé svo mætti fara í hraða uppbyggingu á Dalvík, í kjölfarið byggður fjöldi rammgerðra steinhúsa sem nú mynda kjarna Dalvíkurbæjar.
Dalvíkurskjálftanum eru gerð ítarleg skil í Sögu Dalvíkur og er þar að finna ýmsar frásagnir þeirra sem upplifðu skjálftann. Þar er meðal annars frásögn Petrínu Jónsdóttur þá búsettri í Lambhaga. Dagana fyrir skjálftann dreymdi hana undarlega drauma. Þar sem hún var að því komin að eiga barn túlkaði hún draumana svo að eitthvað myndi koma fyrir annað hvort sig eða barnið og var búin að gera ráðstafanir þess vegna. Annað koma á daginn. Aðfaranótt 2. júní er ljósmóðir sótt, Albína Bergsdóttir, til að aðstoða við fæðinguna, en Petrína var þá komin með fæðingarhríðir. Petrína var mjög kvíðin vegna þeirra drauma sem hana hafði dreymt og varð ekki rórri þegar ljóst var að læknirinn væri upptekinn yfir sjúklingi og gæti ekki komið og sinnt henni. Allt gekk þó vel og litlu fyrir hádegi fæðist stúlka. Ljósmóðirin er svo að sinna sængurkonunni þegar ósköpin dynja yfir. ,,Allt lauslegt datt af veggjum.
Ofan í rúm sængurkonunnar, sem var upp við steinvegg, féll skápur: hana sakaði þó ekki. Mulningssalli úr lofti og veggjum barst um allt herbergið, rigndi yfir rúmið. Skyndilega klofnaði einn veggurinn því nær frá. Hávaðinn var ærandi. Petrína bað Albínu bjarga barninu. Þegar hún ætlaði út, stóð hurðin á sér. Hún kallaði þó út og bað nærstadda menn koma til hjálpar. Í því bar Sigurð (eiginmaður Petrínu) að. Kvað hann norðurstafn hússins hruninn, reykháfinn falinn, suðurstafn héngi uppi, en gæti farið sömu leið, hvenær sem væri. Petrína var borin út í undirsænginni, en Albína greip hvítvoðunginn, vafði í sæng og bar heim í Nýjabæ. „ Móður og barni heilsaðist vel í framhaldinu og fékk barnið nafnið Sigurveig. Veiga eins og hún er kölluð fagnaði því 90 ára afmæli í gær og óskum við henni til hamingju með það. Til er fjöldinn allur af gögnum frá jarðskjálftanefnd á héraðsskjalasafninu sem sýna þá vinnu, þrótt og samheldni sem átti sér stað í samfélaginu þetta örlagaríka sumar.
Fyrirsagnir blaðana dagana á eftir voru í takti við ástandið sem upp ríkti í bænum „ógurlegar skemmdir á Dalvík & nágrenni“ „stórtjón í Hrísey“ „fjöldi fólks húsnæðislaus“
Samstaða og samvinna kom Dalvíkingum í gegnum þessar hamfarir, og er þessi atburður lýsandi fyrir það hvað sameiningarmátturinn getur haft mikill áhrif þegar hamfarir dynja yfir.
Í anddyri menningarhúsins Bergs má sjá sýninguna „sjá jörð skelfur“ en hún hefur að geyma ljósmyndir frá dögunum eftir skjálftann sem varpað er á eitt tjaldanna sem reist var í kjölfar skjálftans. Á sýningunni má einnig heyra frásagnir fólks sem upplifði þessa tíma í lestri Dominique Gyðu Sigrúnardóttur.
Heimild og myndir: Saga Dalvíkur, Héraðsskjalasafn Svarfdæla.