Páskakaka – uppskriftin er fyrir um 15 manns (uppskrift frá Coop)

  • 100 g smjör
  • 2 dl mjólk
  • 4 dl hveiti
  • 1 dl kakó
  • 2 tsk lyftiduft
  • 4 egg
  • 2 dl sykur
  • 2 dl hrásykur

Fylling

  • 5 dl rjómi
  • 400 g Nutella við stofuhita
  • 1/4 dl appelsínusafi (gott að hafa trópí)
  • fínrifið hýði af einni appelsínu
  • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið í potti. Takið af hitanum og bætið mjólkinni saman við. Blandið hveiti, kakói og lyftidufti saman. Hrærið egg, sykur og hrásykur saman þar til blandan er létt og loftkennd. Hrærið þurrefnunum saman við og bætið smjörmjólkinni í. Hrærið saman í slétt deig.

Setjið deigið í smurt form (24 cm) og bakið í miðjum ofni í um 40 mínútur (ég þurfti að bæta aðeins við bökunartímann). Stingið prjóni í kökuna til að sjá hvort hún sé tilbúin. Látið kólna.

Þeytið rjómann. Hrærið Nutella saman við rúmlega helminginn af rjómanum. Hrærið appelsínusafa, appelsínuhýði og vanillusykri saman við restina af rjómanum.

Skiptið tertubotninum í þrennt með löngum hnífi. Setjið nutellafyllinguna á milli botnanna og endið á að setja appelsínurjómann yfir hana.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit