Djúp lægð nálgast landið með tilheyrandi leiðindaveðri um allt land næsta sólarhringinn.

Það gengur í norðaustan hvassviðri eða storm syðst á landinu frá Öræfum og vestur undir Eyjafjöll.

Talsverð eða mikil rigning fylgir lægðinni á Suðausturlandi og Austfjörðum og má búast við miklu vatnsveðri þar um slóðir næsta sólarhringinn. Einnig verður mikil úrkoma á norðanverðum Ströndum á morgun. Auknar líkur á vatnavöxtum og skriðuföllum verða á þessum svæðum.

Mikilvægt er fyrir ferða- og útivistarfólk að fylgjast vel með veðurspám og -viðvörunum.

Það lægir sunnan- og austanlands í fyrramálið, en að sama skapi gengur í norðaustan hvassviðri norðvestantil, sem getur reynst varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Það dregur úr úrkomu sunnan- og austanlands annað kvöld, en ekki á Ströndum fyrr enn aðra nótt.

Í Vestmannaeyjum er mikil óvissa í veðurspánum fyrir kvöldið enda á mjög afmarkaður úrkomubakki að myndast nálægt eyjunni sem gæti skila mikilli úrkomu á skömmum tíma ef svo hittir á, en líklega má reikna með talsverðri rigningu um tíma í kvöld. Á sama tíma gæti dregið úr vindi um stund, en um hálfgert svikalogn að ræða því von er á allhvössum austan vindi í nótt sem gæti valdið fólki í tjöldum vandræðum. Það lægir síðan snemma í fyrramálið, en það verður áfram dálítil bleyta allan daginn á morgun.

Heimild og myndir/Veðurstofa Íslands