Elísa Alda Ólafsdóttir Smith
Mynd/af vefsíðu MTR

Tveir nemendur útskrifuðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga með afburða námsárangur af haustönn, hvort tveggja stúlkur sem báðar eru fjarnemar.

Á vefsíðu skólans segir:

Okkur þótti fróðlegt að vita hvað það væri við kennsluna, námið í skólanum og skipulag þess sem hentaði þeim svo vel sem raun ber vitni og hvernig það kom til að þær sóttu um nám í MTR.

Báðar hafa vakið athygli kennara undanfarnar annir fyrir metnaðarfull verkefnaskil viku eftir viku, gagnrýna hugsun, áræðni og áhuga en einnig fyrir að fylgja vel verkefnalýsingum, vera þægilegar í samskiptum og vera hreint út sagt alveg til fyrirmyndar.

Elísa Alda varð sem fyrr segir dúx skólans og útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið frá stofnun skólans; 9,63. Hún hafði þetta að segja um upplifun sína af náminu í MTR.

Ég er búsett á Spáni með foreldrum mínum og yngri systur og hef verið síðastliðin fjögur ár. Ég hef ávallt unnið með náminu, enda hentar fjarnám við skólann einstaklega vel til þess. Ég byrjaði að vinna sem þjónustustúlka á veitingastað þegar ég var 16 ára og vinn núna á Paddy’s Point í La zenia.

Ég frétti fyrst af MTR hjá námsráðgjafanum mínum í grunnskóla þegar ég var að velta því fyrir mér hvernig ég gæti mögulega sinnt námi í menntaskóla erlendis frá. MTR varð strax minn fyrsti og nánast eini kostur í vali á menntaskólum og hefur hentað mér fullkomlega. Skipulag námsins, símat og auðvelt aðgengi að fjölbreyttu rafrænu námsefni gerði mér kleift að útskrifast sem stúdent án þess að þurfa að yfirgefa fjölskyldu mína og heimili á Spáni til þess að mæta í lokapróf eða annað slíkt.

Það sem kom mér helst á óvart í náminu var fjölbreytni áfanga og verkefna í skólanum. Það var gaman að geta valið sér áfanga út frá sínum eigin áhugamálum. Ég hafði sérstaklega gaman af myndlistar, listaheimspeki og ýmsum bókmennta áföngum, bæði íslenskum og enskum. Þrátt fyrir að vera útskrifast af náttúrufræðibraut veitti skólinn mér gott tækifæri til þess að skoða og prófa mig áfram í áföngum utan hennar. Að auki voru kennarar mjög hvetjandi í garð nemanda og ávallt tilbúnir að hjálpa, svara spurningum og veita frekari útskýringar á verkefnum ef eitthvað flæktist fyrir manni.

Að geta sinnt verkefnum sjálfstætt á tíma sem hentar manni, vitandi að maður hefur þó kennarana ávallt innan handar til að hjálpa ef þörf krefur, er það sem gerir nám við skólann einstaklega hentugt hverjum þeim sem hefur not af fjarnámi, sama hver ástæðan er. Námið er líka frábær undirbúningur í sjálfstæðum vinnubrögðum og almennum samskiptum sem ég tel vera mikilvægan hluta af hvaða námi sem ég mun sækja mér í framtíðinni og störfum sem ég mun sinna.

Ég er afar ánægð og þakklát fyrir MTR og að ég hafi getað fundið nám sem hentaði mér svo vel.

Forsíðumynd /Gísli Kristinsson