Ástæða þess að orðin skrýtinn og skrítinn sjást rituð á tvennan hátt er sú að óvíst er hvert stofnsérhljóðið er. Sumir vilja tengja skrýtinn norska orðinu skryten ‘magur, beinaber, klunnalegur, ljótur’ og sænska orðinu skryten‘magur’ og telja að þau bendi til ý í stofni. Aðrir telja merkingu norsku og sænsku orðanna ekki koma heim og saman við íslensku merkinguna og því sé uppruninn enn á huldu.
Í Réttritunarorðabók handa grunnskólum, sem Námsgagnastofnun og Íslensk málnefnd gáfu út, er aðeins gefinn ritháttur með ý, þ.e. skrýtinn, skrýtla, í Stafsetningarorðabók Halldórs Halldórssonar eru báðir rithættir nefndir en tilraun til upprunaskýringar sett undir myndina með –ý-. Enginn munur er á notkun orðanna eftir því hvort þau eru skrifuð með í eða ý en ritháttur með ývirðist heldur algengari.
Frétt: Vísindavefurinn
Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir