Snæfríður Ingadóttir rithöfundur og fjölmiðlakona hefur undanfarin tólf ár ferðast víða um heim ásamt eiginmanni og þremur börnum. Hún segir að ekki þurfi endilega að bíða með að ferðast með börnin þangað til þau sé orðin eldri því þá séu þau jafnvel enn frekar bundin við framhaldsskóla og félagslíf. Snæfríður býður upp á fyrirlestra ætlaða foreldrum sem dreymir um að upplilfa ævintýri og ferðast með fjölskyldunni en vantar hugrekki og innblástur. Snæfríður var gestur í Sumarmálum á Rás 1 þar sem hún ræddi við Guðrúnu Gunnarsdóttur og Gunnar Hansson um ræddum ferðalög með börn, húsið þeirra á Tenerife og fleira.

„Ferðalög fá mann til að meta það sem maður hefur“

Hún er fædd og uppalin á Akureyri og fann útþrá snemma krauma innra með sér. Strax og grunskóla lauk fór hún suður í skóla, þaðan sem au pair til Þýskalands, í nám til Frakklands auk þess sem hún hefur búið í Noregi. En hún segir líka alltaf gott að koma heim. „Ég var með útþrá en er komin aftur hingað sem einmitt, ferðalög fá mann til að meta það sem maður hefur.“

Dóttirinn fædd í júní og fjölskyldan komin á sólarströnd um jólin

Hún hefur alltaf verið forvitin sem er ástæðan fyrir því að hún varð blaðamaður. Hún er forvitin um fólk og fróðleiksþyrst. Það var um miðjan snjóþungan vetur á Akureyri árið 2013 þar sem hún var með eiginmanninum og þrjú börn sem hún fann útþránna grípa um sig. Fjölskyldan átti ekki gildan ferðasjóð en þau langaði mikið að komast í burtu. Hún var staðráðin í að finna leið og það gerði hún. „Þriðja dóttirin fæddist 1.júní og um jólin vorum við komin á sólarströnd.“

Byrjuðu á íbúðaskiptum og keyptu loks hús

Það tókst að halda kostnaði í lágmarki með íbúðaskiptum. Eftir að fjölskyldan uppgötvaði þann möguleika hafa þau samkvæmt Snæfríði verið óstöðvandi. Í tólf ár hafa þau farið erlendis með dætur sínar að vetrarlagi allt frá nokkrum vikum upp í heilan vetur.

Þau fara út á veturna frekar en á sumrin því að eiginmaður Snæfríðar er húsasmíðameistari og það er mikið álag á sumrin við að til dæmis skipta um þök og glugga. „Það eru fleiri starfsstéttir sem eru svona, nóg að gera á sumrin og maður kemst ekkert í burtu þá. En ef maður ætlar í burtu á veturna vill maður helst fara af stað þar sem er ágætisveður og þess vegna fórum við til Kanarí eyja. Það er sá staður í Evrópu sem er garanterað með gott veður á veturna.“

Þau hafa flakkað um eyjarnar og orðið svo hrifin að loks festu þau kaup á húsi á Tenerife árið 2022 og standa nú í ströngu við að gera það upp.

„Við erum húsasjúk og lítum á þetta sem skemmtilegt verkefni“

Húsið er illa farið enda hafði ekki verið búið í því í meira en áratug. Það þurfti mikið að gera og þarf enn. Fjölskyldan fór út vetuinn 2023 og henti rusli og tók til í garðinum. Svo var ráðist í að fá byggingarleyfi og það hefur tekið tíma. „Við erum nýbúin að fá já, við höfum verið með arkitekta í vinnu við að teikna upp þær breytingar sem þarf að gera.“

Þau fengu húsið á fínu verði enda var það að drabbast niður en þau eru spennt fyrir framkvæmdavinnunni. „Við höfum verið sjálf að gera það sem við getum gert. Við fengum þetta á ágætisverði en það er spurning hver endanlegur verðmiði verður þegar það er búið að laga allt,“ segir hún. „Við hefðum aldrei farið í þetta nema því maðurinn minn hefur áhuga á þessu. Við erum húsasjúk og lítum á þetta sem skemmtilegt verkefni en erum ekkert að flýta okkur, þetta tekur bara sinn tíma.“

Ferðalög geta verið góður undirbúningur fyrir lífið

Í lengri dvölum þeirra hafa dæturnar farið í spænskan skóla. Hún segir að það séu til ýmsar útfærslur á því og foreldrar þurfi ekki að vera ragir við að leita leiða. Auk þess bendir hún á að hjá ungu fólki séu ferðalög og áskoranir líka mikilvægt nám og þroskaferli út af fyrir sig. „Þetta er ekki andstæða skólamenntunnar heldur viðbót. Skóli er mikilvægur en ekki eina leiðin að námi, börn geta lært mikið af ferðalögum þó þau fari ekki inn í skólakerfið úti.“

Hún segir að það vilji allir, foreldrar og skólakerfið, að börnin okkar verði að heilbrigðum einstaklingum sem eru tilbúin að takast á við lífið. Þar komi lengri ferðir og aðlögun að nýjum aðstæðum sér oft vel. „Með réttum undirbúningi eru ferðalög ekki tap á námi heldur önnur leið sem sameinar frelsi, nám og fjölskyldutengsl,“ segir hún.

Kunna að meta frelsið í íslenska skólakerfinu eftir að kynnast agagnum í því spænska

Foreldrar þurfi að að taka ábyrgð á barninu og passa upp á að það dragist ekki aftur úr. Til þess séu til leiðir. „Við höfum gert þetta þannig að í upphafi hausts þegar við vitum að við erum að fara í einhvern tíma að vetri til höfum við strax byrjað að ræða þetta við kennara og skólayfirvöld og reynt að undirbúa þetta. Látið börnin vera frekar á undan en eftir og tekið þetta samtal við skólayfirvöld hvað við þurfum að gera til að börnin tapi ekki náminu.“

Dætur þeirra kunna í dag spænsku og þær búa að ýmsu eftir kynni við spænskt skólakerfi. Snæfríður segir að þær hafi lært sjálfstæð vinnubrögð en þær hafi líka lært að meta margt í íslenska skólanum og hvernig námi hér er byggt upp. „Spænski skólinn var kröfuharður, erfiður og jafnvel gamaldags. Það var eftirseta og gamaldags kennsluaðferðir,“ segir Sæfríður. „Þær kunnu gríðarlega vel að meta íslenska skólakerfið og sáu hvað þær hafa mikið frelsi á Íslandi.“

Yngsta dóttir hjónanna var fimm ára en hinar níu og tíu þegar þau fluttu fyrst út í heilan vetur til Tenerife og dæturnar fóru inn í spænska skólakerfið Stelpurnar voru spenntar enda pössuðu foreldrarnir að tala við þær og leyfa þeim að taka þátt í samtalinu svo allir litu á flutningana sem fjölskylduverkefni. Börnin þurfa líka að vilja þetta og finnast þetta spennandi,“ segir hún. „Ef þetta er einhver undirliggjandi draumur vil ég endilega hvetja fólk til að gera þetta. Láta þennan draum rætast.“

Hún mælir með því að kýla á drauminn á meðan börnin séu ung og frekar til í að fylgja foreldrunum en á unglingsárum. „Þetta styrkir líka fjölskyldu- og systraböndin. Okkar stelpur þurftu að vera félagsskapur fyrir hvora aðra, stóla á hvora aðra og þetta styrkti böndin á milli þeirra mjög mikið og okkar sem fjölskyldu,“ segir Snæfríður. „Í dag er það oft þannig að það eru allir á kafi í vinnu og íþróttum og fjölskyldur hittast oft ótrúlega lítið en með því að fara úr rútínunni og gera eitthvað saman er það allt önnur upplifun og styrkir tengslin að vera saman.“

Snæfríður býður foreldrafélögum í grunnskóla upp á spjall um lengri fjölskylduferðalög yfir vetrartímann auk þess sem hún er með fræðslu um gönguleiðir á Tenerife hjá Endurmenntun. Vefsíðu hennar má finna hér.

Eftirfarandi viðtal fór fram í þættinum Sumarmál á RÚV og hægt að hlusta á viðtalið: HÉR

Myndir/úr einkasafni