Um 20 kennarar og skólameistari héldu starfsdag kennara í MTR í gærmorgun. Dagur sem þessi heitir vinnudagur á skóladagatali og er haldinn í upphafi hverrar annar.
Þá er boðið upp á margþætta fræðslu fyrir kennara og í þetta sinn nýttu kennarar sér hina gríðarmiklu þekkingu sem fyrirfinnst innanhúss, og miðluðu þekkingu sín á milli.
Þetta var svokallað “brainstorming” eða hugstormun.
Einnig var fulltrúum Trölla þeim Gunnari Smára og Kristínu Sigurjónsdóttur boðið í heimsókn til að ræða fyrirhugað samstarf MTR og Trölla varðandi dagskrárgerð. Meira um það síðar.
Athygli vöktu tvær “fjærverur” eins og þær kallast, sem gera mögulegt fyrir fjarstadda kennara að tengjast þessum fjærverum og taka þannig þátt í skólastarfinu. Þessar tilteknu fjærverur heita Lóló og Eva. Þær sjást tala saman á forsíðumyndinni, en það voru kennararnir Valgerður Ósk Einarsdóttir dönkukennari og námskrárstjóri ( til hægri ) og Bergþór Morthens sem kennir fagurlistir og sýningastjórn ( vinstra megin ) sem voru “um borð” í fjærverunum að þessu sinni.
MTR er fyrsti framhaldsskólinn hérlendis sem getur státað af slíkum fjærverum og hafa þær reynst vel.
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir