Ársreikningur Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2024 var tekinn til fyrri umræðu í sveitarstjórn í síðustu viku. Ljóst er að fjárhagsleg staða Dalvíkurbyggðar er sterk og rekstrargrundvöllur sveitarfélagsins er góður.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt lögum um reikningsskil sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða að meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.
Samstæða Dalvíkurbyggðar, þ.e. Aðalsjóður, Eignasjóður, Félagslegar íbúðir, Fráveita, Hafnasjóður, Hitaveita og Vatnsveita, var rekin með 282 millj. kr. afgangi. Rekstur samstæðunnar gekk því mun betur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 145,6 millj. kr. afgangi. Meginskýringar á bættri afkomu eru áhrif lækkandi verðbólgu, hófleg hækkun lífeyrisskuldbindinga ásamt hækkun tekna frá Jöfnunarsjóði og þjónustutekna.
Samtals voru rekstartekjur samstæðunnar á árinu 2024, 3.758 milljónir króna, sem nemur hækkun rekstrartekna á árinu um 272 milljónir króna.
Annar rekstrarkostnaður var 33,2% í hlutfalli af rekstrartekjum, sem er 0,5% yfir áætlun. Við yfirferð síðasta ársreiknings fyrir árið 2023 hafði annar rekstarkostnaður hækkað um 235 milljónir króna á milli ára en frá árinu 2023 – 2024 hækkar hann um 67,2 milljónir króna.
Samkvæmt yfirliti um sjóðsstreymi nam veltufé frá rekstri rúmum 536 millj. kr. sem er 96 millj. kr. hærra en áætlað var.
Fjárfestingahreyfingar námu samtals 499,3 millj. kr sem er undir áætlun ársins sem hljóðaði upp á 612,2 milljónir, mismunur upp á 112,9 milljónir rétt rúmar. Enda voru stór verkefni sem varð að fresta svo sem endurbætur á sundlaug Dalvíkur, bygging slökkvistöðvar og bygging nýs vatnstanks.
Afborgun langtímalána nam tæpum 105 millj. kr., og voru engin ný langtímalán tekin á árinu.
Handbært fé frá rekstri í árslok nam 486,2 millj. kr. en það er sú upphæð sem sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar til framkvæmda og greiðslu lána og er sú tala sem horfa á til þegar fjárfestingar næsta árs eru ákveðnar.
Heildarlaunagreiðslur með launatengdum gjöldum en án lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni voru 1.934 millj.kr. Laun og launatengd gjöld samstæðunnar í hlutfalli af rekstrartekjum voru 53,3% sem er 2,7% undir áætlun.
Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir sveitarfélagsins bókfærðar á 6.525 millj. kr en þar af voru veltufjármunir 1.162 millj. kr.
Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 2.145 millj. kr. en þar af voru skammtímaskuldir 526 millj. kr.
Fjárhagur Dalvíkurbyggðar er mjög traustur og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 14,6% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Skuldahlutfall samstæðunnar þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta um áramót var 57,1% en hámark samkvæmt lögum er 150%.
Veltufjárhlutfallið var 2,21 í árslok 2024 en var 2,35 árið áður. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 4.379,6 millj.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 3.376,7 millj. kr. Eiginfjárhlutfall var 67,1%.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður síðari umræða um hann til umfjöllunar í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar þann 13. maí nk.
Að yfirferð lokinni er það því nokkuð ljóst að niðurstaða ársreiknings Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2024 er góð og fjárhagur sveitarfélagsins er traustur.
Það er að mínu mati fyrst og fremst að þakka styrkri fjármálastjórn þar sem unnið er eftir skýrum verkferlum og eftirfylgni við fjárhagsáætlun hvers árs. Að mínu mati er vandasamara að veita aðhald þegar afkoman er svo jákvæð sem raun ber vitni.
Ég viðurkenni fúslega að ég er ákaflega hreykin af þessari góðu niðurstöðu, og það skiptir máli að halda henni á lofti, því í ljósi umræðu um fjáhagsstöðu sveitarfélaga er látið að því liggja að á sveitarstjórnarstiginu sé allt í kalda koli, en því fer víðsfjarri. Því miður fá vel stæð sveitarfélög ekki sömu athygli og þau sem eiga í erfiðleikum.
Verum keik og þar skiptir öllu máli að kjörnir fulltrúar, starfsfólk sveitarfélagsins, atvinnulífið og allir íbúar sveitarfélagsins eiga sinn þátt í þessari góðu niðurstöðu. Um hana þarf að standa vörð til þess að geta veitt góða þjónustu og byggt upp þá innviði sem hverju sveitarfélagi eru mikilvægir.
Við getum verið þakklát fyrir okkar góða samfélag.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir,
Sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.