Fjölmenn þátttaka KF á fyrsta Stefnumóti vetrarins - Myndir

Fyrsta Stefnumót vetrarins hjá yngstu aldursflokkunum fór fram síðastliðinn laugardag í Boganum á Akureyri og létu iðkendur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar (KF) ekki sitt eftir liggja. KF tefldi fram fjölmörgum liðum og skapaði líflega stemmningu á vellinum þar sem gleði, leikni og samheldni einkenndu daginn.

KF var með fimm lið í 8. flokki þar sem leikið er í 3ja manna bolta og stóðu krakkarnir sig afar vel. Í 7. flokki sendi félagið einnig fimm lið til leiks, tvö þeirra í 5-manna bolta og þrjú í 3ja manna bolta. Þá tóku þrjú lið í sameiginlegu liði KF/Dalvíkur þátt í keppni í 6. flokki drengja.

Í heildina mættu yfir fimmtíu iðkendur frá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar til leiks á mótinu sem sýnir glæsilegan kraft og metnað í starfi yngri flokka félagsins. Í lok dags fengu allir þátttakendur pizzu, safa og verðlaunapening sem innsiglaði ánægjulega og eftirminnilega stund.

Næsta Stefnumót fer fram á nýju ári þegar 5. og 6. flokkur kvenna mætir til keppni 17. janúar.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá skemmtilegum mótsdegi.

Myndir: facebook / Fréttasíða yngri flokka KF