Skeiðsfossvirkjun 80 ára – fjölmenni, gleði og saga í forgrunni

Það var líf og fjör í afmælisveislunni á Skeiðsfossi síðasta sunnudag, þegar virkjunin fagnaði 80 ára afmæli með opnu húsi og gestum sem komu víða að. Um 250 manns komu í heimsókn, sem er meiri fjöldi en skipuleggjendur þorðu að vona.

Veðrið lék við gestina þrátt fyrir nokkurn vind, sem þó hafði þann kost að halda flugunni fjarri – og það þótti mörgum hið besta mál.

Sigtryggur Kristjánsson, stöðvarstjóri leiddi gesti í gegnum virkjunina og sagði frá sögu hennar, þróun og hlutverki í uppbyggingu Siglufjarðar á síldarárunum. Margir gerðu sér einnig ferð upp að stíflunni, gangandi eða akandi, til að skoða mannvirkin og umhverfið.

Boðið var upp á grillaðar pylsur, kökusneiðar og kaffi – og fyrir yngstu gestina var hoppukastali sem naut mikilla vinsælda.

„Í alla staði mjög vel heppnað að okkar mati,“ segir Orkusalan í samantekt. „Fólk var í góðu stuði og virtist ánægt með framtakið – enda á Skeiðsfossvirkjun sér ríka sögu sem megin orkugjafinn í síldarævintýri Siglfirðinga á sínum tíma og vert er að minnast og hampa.“

Kraftur Fljótaár og upphaf síldarævintýrisins

Skeiðsfossvirkjun, sem er knúin af Fljótaá, var lykilstoð í þeirri stórkostlegu uppbyggingu sem fylgdi síldarævintýrinu á Siglufirði. Hún veitti nauðsynlegt rafmagn til verksmiðja, heimila og fyrirtækja, og lagði þannig grunn að því kröftuga samfélagi sem spratt upp með hraði á fimmta áratug síðustu aldar.

Í dag er virkjunin rekin af Orkusölunni og nýtur nútímalegra stýrikerfa og tækni – en saga hennar, hlutverk og menningarlegt vægi lifir áfram, ekki síst í umsjá þeirra sem þar starfa og búa.

Skeiðsfossvirkjun 80 ára – kraftur, tækni og fjölskylduhefð

Myndir/Orkusalan