Flokkaflakkarinn og þingmaðurinn fyrrverandi Kristinn H Gunnarsson skrifaði riststjórnargrein í BB fyrir fáeinum dögum þar sem ekki er laust við að það örli á svolítilli neikvæðni í garð okkar Siglfirðinga. Kristinn var hálfbróðir Gunnars Birgissonar heitins fyrrverandi bæjarstjóra í Fjallabyggð og hefur setið á þingi fyrir Alþýðubandalagið, Framsóknarflokkinn, Frjálslynda flokkinn, en einnig utan flokka. Nú er hann ritstjóri og ábyrgðarmaður BB og beinir hárbeittum spjótum sínum að Tröllaskagabúum. Og þó ekki alveg bara íbúum á öllum skaganum, því á milli línanna má skynja að honum sé pínulítið og alveg sérstaklega í nöp við Siglfirðinga frekar en til dæmis Ólafsfirðinga, en Fljótamenn sleppa ekki alveg ótjónaðir frá umfjöllun hans. Staðreyndirnar virðast í skrifunum vera aðlagaðar skoðunum hans og nýju lífi blásið í gamla og lúna takta hreppapólitíkur sem þokkalega þroskaðir og veraldarvanir menn ættu að vera vaxnir upp úr. Það verður nefnilega ekki betur séð en að í pistli hans sé miklu frekar farið í manninn en málefnið, því hvorki Siglfirðingar né aðrir íbúar Tröllaskaga stjórna gerðum Vegagerðarinnar eða ákvörðunum hins opinbera þegar kemur að því að ákvarða röð verklegra framkvæmda sem lúta að jarðgangnagerð.
ÓBOÐLEGUR MÁLFLUTNINGUR.
Kristinn kallar það sérkennilegan málflutning að nú sé krafist Fljótaganga með þeim rökum að Héðinsfjarðargöngin séu ekki nægjanlega örugg. Hafið þið lesendur góðir heyrt af því að Héðinsfjarðargöng séu eitthvað óörugg? Svo telur hann þau ágætu göng vera tvenn sem er vissulega tæknilega rétt, en þau voru ein og sama framkvæmdin og hlutarnir verða tæpast aðskildir hvor frá öðrum eins og um óskylda verkþætti væri að ræða. Þetta gerir hann einungist til að blása upp sinn óboðlega málflutning og láta hlutina líta öðruvísi út en þeir gera í raun. Hann segir að rök Vegagerðarinnar um ástand vegarins um Almenninga eru veigalítil og að þótt sá vegur sigi, sé hugsanlega á leiðinni niður í fjöru og verði því jafnvel ónothæfur í framtíðinni, þá sé hann ekki brýnn, hvorki fyrir Siglfirðinga né þær fáu hræður sem enn búa í Fljótunum. Siglfirðingar sæki alla sína þjónustu að eigin ósk í Eyjafjörðinn um Héðinsfjarðargöng og Fljótamenn búi við láglendisveg til Skagafjarðar. Það þurfi því engin jarðgöng og gerð lítt nauðsynlegra Fljótaganga muni aðeins seinka öðrum brýnni framkvæmdum á því sviði. Kristni þykir greinilega óþarfi að nefna Ólafsfjörð og Ólafsfirðinga frekar en að þeir séu ekki til og hvað þá aðra íbúa Eyjafjarðarsvæðisins, en oft hefur sú staða komið upp að Öxnadalsheiði hefur verið ófær og hafa þá Akureyringar að aðrir Eyfirðingar notast við Héðinsfjarðargöng og stórhættulegan veg um Almenninga til að komast til Reykjavíkur.
ER VEGAGERÐIN KOMIN Á KAF Í PÓLITÍK?
Kristinn segir málflutning Vegagerðarinnar frekar pólitískan en faglegan. Ljóst sé af framgangi málsins að Vegagerðin hafi fengið fyrirmæli frá ríkisstjórninni um að Fljótagöngin verði næstu jarðgöng á landinu. Þá notar hann tækifærið og potar svolítið í innviðaráðherrann og þingmann kjördæmisins Eyjólf Ármannsson og segir að nú takist honum ekki lengur að dyljast í þessu máli því búið sé að ákveða að fjórðu jarðgöngin til Siglufjarðar verði á undan næstu jarðgöngum sem hann telur að eigi að vera á Vestfjörðum. Þar er hann að tala um jarðgöng milli Skutulsfjaðar og Súðavíkur og ég get vel unnt vestfirðingum að fá slík göng og það sem allra fyrst, en ég held að það þjóni ekki hagsmunum þeirra að farið sé í einhvern lágkúrulegan skotgrafarhernað eins og þessa greinarpjötlu. Annars verður að segjast að vegagerðin og rískisstjórnin hafa verið að draga lappirnar þegar kemur að jarðgangagerð og ef þeir aðilar hefðu haldið sig betur að verki hefði Súðavíkurgöngin átt að vera komin til nú þegar. En það hefur eins og þeir vita sem fylgst hafa með þessum málaflokki, strandað á því að ráðamenn hafi haft dug í sér að taka af skarið um hvernig fjármagna skuli framkvæmdirnar.
RÚSÍNAN Í PYLSUENDANUM.
Kristinn nefnir grjóthrunið í Súðavíkurhlíð, en minnist ekki einu orði á snjóflóðin, skriðuföllin, jarðsigið og jú, einnig grjóthrunið á Almenningunum, enda ekki ástæða að hans mati að nokkur einasti maður eigi nokkurt erindi um þann ónauðsynlega veg. Og ef við yfirfærum orð Kristins yfir á vestfirðina, þá ætti það að duga Súðavíkurbúum alveg ágætlega að sækja bara sína þjónustu til Hólmavíkur og þar með þyrfti ekki neinn veg um Súðavíkurhlíð. En að sjálfsögðu þarf að vera vegur um þá hlíð rétt eins og Almenninga og ég vil taka það stórt upp í mig að segja að skoðanir Kristins eru ekkert annað en rugl í einstaklingi sem annað hvort þekkir ekki til aðstæðna eða vill ekki þekkja til þeirra. Talandi um jarðgöng í fleirtölu, þá hafa Vestfirðingar þegar fengið Vestfjarðagöng með T-tengingu, Bolungavíkurgöng og Dýrafjarðargöng og vonandi fá þeir Súðavíkurgöng sem allra fyrst. Því er svo við að bæta að til skoðunar hafa verið fjögur jarðgöng á vestfjörðum, þ.e. milli Ísafjarðar og Súðavíkur, um Mikladal og Hálfdán sem eru tvenn göng og Klettsháls, samtals upp á 80 milljarða króna. En þeir sem vilja lesa alla vitleysuna frá hinum pólitískt villuráfandi ritstjóra, geta þeir hinir sömu farið inn á BB um slóðina https://bb.is/…/fjordu-jardgongin-til-siglufjardar-i…/ en Kristinn H Gunnarsson endar pistil sinn á eiturpillunni „En vetrarferðir ríka fólksins að Deplum eru mikilvægir“.