Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið óskar eftir umsögnum um frumvarp til laga þar sem innleidd verða ákvæði tilskipunar ESB 2014/61 um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða fjarskiptanetum.

Drögin að frumvarpinu eru í samráðsgátt Stjórnarráðsins og frestur til að senda inn umsögn er til og með 5. febrúar n.k.

Skoða drög að frumvarpi í samráðsgátt https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1255.

Skoða tilskipun (hjá EFTA) http://www.efta.int/eea-lex/32014L0061.

Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu tilskipunar ESB 2014/61 um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða stafrænum fjarskiptanetum í íslenskan rétt.

Í frumvarpinu er lagt til að innleidd verði ákvæði tilskipunarinnar er m.a. taka til þess að skilgreina tiltekin lágmarksréttindi og -skyldur rekstraraðila neta til að auðvelda útbreiðslu háhraða fjarskiptaneta. Þar er kveðið á um aðgengi að lágmarksupplýsingum um fyrirliggjandi efnisleg grunnvirki, yfirstandandi eða fyrirhugaðar leyfisskyldar mannvirkjagerðar í því skyni að kanna möguleika á samhæfingu framkvæmda. Einnig er kveðið á um skyldu rekstraraðila neta til að verða við réttmætum beiðnum um aðgang að fyrirliggjandi efnislegum grunnvirkjum með uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta í huga, samkvæmt sanngjörnum og eðlilegum skilmálum, þ.m.t. um verð. Sérstakar skyldur eru lagðar á þá rekstraraðila neta sem standa með beinum eða óbeinum hætti að mannvirkjagerð sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð úr opinberum sjóðum. Almennt er miðað við að slíkir aðilar veiti aðgang, svo fremi sem slík beiðni um samhæfingu mannvirkjagerðar hafi ekki í för með sér aukinn viðbótarkostnað (s.s. vegna tafa), hindri ekki stjórnun framkvæmdar og umsókn um samhæfingu sé lögð inn a.m.k. mánuði fyrir umsókn um leyfisveitingu.

Þá er fyrirhuguð setning reglugerðar á grundvelli laganna efnisákvæðum laganna til nánari skýringar og fyllingar, auk breytinga á byggingareglugerð og reglugerð um framkvæmdaleyfi m.a. vegna málsmeðferðar skipulags- og byggingaryfirvalda og ákvæða er varða frágang fjarskiptalagna í byggingum.