Heildarfermetrar hótela og annarra gistirýma voru 757 þúsund talsins við síðustu áramót, sem er tæplega 27 þúsund fermetrum meira en um áramótin 2022 og 2023 og jafngildir 3,6 prósenta aukningu. Þetta kemur fram í tölum HMS um fermetrafjölda atvinnuhúsnæðis, sem finna má sem excel skjal með því að smella hér.

Samkvæmt tölunum hefur fermetrum sem lagðir eru undir gistirými fjölgað um 84 prósent á síðasta áratug. Til samanburðar hefur fermetrum fyrir annað atvinnuhúsnæði fjölgað um 12 prósent á sama tíma.

Fermetrafjölgunina má sjá á mynd hér að neðan, en hún var mest árið 2016 þegar tæplega 60 þúsund fermetrar bættust við hjá hótelum og öðrum gististöðum. Heldur dró svo úr fjölguninni á næstu árum, en árið 2021 fækkaði fermetrum um 20 þúsund talsins.

Á árinu 2022 fjölgaði svo fermetrum gistirýma um 34 þúsund talsins, en fjölgunin nam um 27 þúsund fermetrum í fyrra. Mest var fjölgunin á Norðurlandi eystra, en þar jókst flatarmál gistirýma um 14 prósent. Á Suðurnesjum fækkaði hins vegar fermetrum hjá gistirýmum um 3 prósent.

Alls eru 258 fasteignanúmer skráð undir hótel og gistihús, en fyrir áratug voru þau 147 talsins. Aukningin er hlutfallslega meiri í sveitarfélögum umhverfis Reykjavík, en þar hefur fasteignanúmerum fjölgað úr 27 í 45 á tíu árum.

Mynd/https://hms.is/