Frá árinu 2023 hefur nýbökuðum foreldrum í Húnaþingi vestra verið færð lítil gjöf til að bjóða nýfædda íbúa velkomna í heiminn. Á árinu 2024 urðu gjafirnar 17 talsins. 

Upphaflega var um tilraun að ræða en viðtökurnar hafa verið góðar og þessi siður mælst afar vel fyrir. Verður honum því fram haldið á árinu 2025 og ekki nóg með það heldur verður bætt í gjöfina. Mun hún nú samanstanda af samfellu, slefsmekk, ullarlambúshettu frá 66N, bók úr bókaflokknum 100 fyrstu orðin, bókinni fyrstu mánuðirnir – ráðin hennar Önnu ljósu eftir Önnu Eðvaldsdóttur og Sylvíu Rut Sigfúsdóttur, bleijupakka, snuði, ásamt sýnishornum af vörum sem henta vel fyrir nýburann og brjóstagjöfina. 

“Með gjöfinni viljum við halda áfram að undirstrika áherslu okkar á fjölskylduvænt samfélag. Hér í sveitarfélaginu er afar gott umhverfi fyrir barnafjölskyldur og viljum við með þessu halda áfram að styrkja það umhverfi enn frekar. Við vonum að gjöfin komi að góðum notum og hlökkum til að taka vel á móti börnum sem koma í heiminn í sveitarfélaginu á árinu.” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri.