Veðurstofa Íslands varar við illviðri víða um land á morgun og hefur verið gefin út gula og appelsínugula veðurviðvörun vegna hvassviðris og snjókomu.
Appelsínugular viðvaranir taka gildi klukkan 15 á morgun á Norðurlandi eystra, klukkan 17 á Austurlandi að Glettingi, klukkan 18 á Suðausturlandi og klukkan 20 á Austfjörðum.
Á þessum svæðum verður norðvestan stormur eða rok með snjókomu. Annars staðar á landinu verða gular viðvaranir sem taka gildi snemma í fyrramálið.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Gengur í norðvestan 15-23 m/s með éljum, en snjókomu um landið norðanvert. Úrkomulítið sunnan heiða síðdegis og dregur úr vindi vestanlands. Hiti nálægt frostmarki. Norðvestan 20-28 á Suðausturlandi og Austfjörðum seint um kvöldið.
Á laugardag:
Norðan 13-23 um morguninn og snjókoma, en úrkomulítið sunnanlands. Dregur úr vindi og ofankomu eftir hádegi. Hiti um eða undir frostmarki.
Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Norðan 8-15 og él, en þurrt að kalla sunnan heiða. Frost 2 til 10 stig.
Hugleiðingar veðurfræðings
Eftir vindasamt veður undanfarið hefur dregið úr vindi, og nú síðdegis er þurrt víðast hvar á landinu. Í kvöld kemur hins vegar næsta lægð inn á Grænlandshaf og það fer að rigna sunnan- og vestanlands.
Allhvöss eða hvöss suðvestanátt á morgun og súld eða rigning, en lengst af þurrt um landið norðaustanvert. Á Norðurlandi má búast við snörpum vindstrengjum og þar eru gular viðvaranir í gildi. Hlýtt í veðri. Annað kvöld og aðra nótt ganga kuldaskil austur yfir landið og það snöggkólnar.
Á föstudag er útlit fyrir norðvestan illviðri á landinu. Fyrri part dags má búast við hvössum éljagangi á vesturhluta landsins, en uppúr hádegi gengur í hvassviðri eða storm norðan- og austanlands með hríðarveðri. Seint um kvöldið bætir svo enn frekar í vind á Suðausturlandi og Austfjörðum.
Viðvaranir hafa nú þegar verið gefnar út vegna þessa veðurs og er fólk hvatt til að fylgjast með veðurspám.
Mynd/af vefsíðu Veðurstofunnar