Húsið Haugasund stóð þar sem nú er þekkt sem Ráðhústorg og á svipuðum stað og styttan af Gústa guðsmanni stendur núna. Á myndinni hér að ofan má sjá það hægra megin við Aðalgötuna, en vinstra megin er Bíóið líklega nýlega byggt þegar myndin er tekin. Nær virðist svo vera nýbyrjað að byggja hús Kaupfélagsins undir Kjörbúð og Kjötbúð, sem í dag hýsir Siglósport og veitingastaðinn Torgið. Maður að nafni Guðbrandur sem ég veit ekki nein frekari deili á, mun hafa átt lóðina sem húsið var reist á, en sami maður byggði svo skúr vestan við það einhverjum árum síðar. Allar mínar heimildir segja að það hafi verið skráð númer 2 við Suðurgötu sem passar illa við núverandi númeraröð við þá götu þar sem jöfnu númerin eru öll vestan götunnar í dag, þó að flestum þætti sennilega eðlilegast að það tilheyrði Aðalgötu.
Sigríður Ingimundardóttir frá Ólafsfirði var sögð hafa byggt húsið í öllum skjölum sem til eru um það fyrir Magnús bónda sinn, sem setti þar upp verslun og ætlaði að sögn að þéna vel í Síldarbænum. Sú útgerð mun hafa staðið stutt og ekki gengið sérlega vel, en hann fékk viðurnefnið Mangi plettur því hann var silfursmiður. Ýmsar sögur fóru af þeim hjónum og hugsanlega ekki allar alveg sannar þó einhverjir hafi fullyrt annað, meðal annars sú að hann var sagður hafa gert hana út í útlend skip sem áttu leið til Siglufjarðar gegn gjaldi. Uppi á efri hæðinni rak Guðrún nokkur veitingasölu, en hún mun hafa haft afar sérstæðar skoðanir á hlutunum. Meðal annars vildi hún ekki taka við seðlum sem greiðslu fyrir veitingarnar, því hún taldi bréfpeninga ekki vera alvöru peninga. Það þurfti því að greiða fyrir þær með klinki.
Til er skemmtileg saga um norskan skipstjóra á skipi sem mun hafa heitið Fri, en hann átti viðdvöl á Siglufirði einhvern tíma og borðaði þá gjarnan hjá Guðrúnu. Einhverju sinni kom hann þangað svangur eftir næturlanga drykkju, en mun fljótlega eftir komuna hafa þurft að létta á sér. Hann skrapp þá suður fyrir hús, en úti var suddarigning. Hann tók sér stöðu við endann á rennustokk sem rigningarvatn safnaðist í og rann út um annan enda rennunnar. Líklega hefur það þá átt vel við skipstjórann orðtakið að „sjá ekki út úr augunum“ vegna ástands hans, því eftir að hann hafði lokið sér af heyrði hann í bununni úr rennunni og taldi að vatnshljóðið væri að hans völdum. Mun hann hafa staðið þarna nokkuð lengi, eða þar til einhver benti honum á hið rétta í málinu.
Húsið mun upphaflega hafa verið flutt á staðinn og sett á staura vegna þess að á sínum tíma rann Álalækurinn um það svæði þar sem húsið stóð. Síðan var byggt við það og var viðbyggingin í sömu breidd og hæð og eldri hlutinn þannig að úr varð mjög heilstætt hús. Einhverju síðar komst húsið í eigu þeirra Hinriks Thorarensen og Gunnars Bílddals og voru þeir eigendur þess þegar eldur kom upp í því og það brann til kaldra kola.
Bæjarblaðið Siglfirðingur segir svo frá 21. maí 1932
„Í gærmorgun, um sjöleitið, varð vart elds í húsinu “Haugasund” (Suðurgata 2) hér í bænum. Eldurinn kom upp með þeim hætti, að annar eigandi hússins, Gunnar Bílddal, sem bjó í vesturenda þess, Hafði verið að hita asfalt (stálbik) á olíuvél, til að gera að gólfi í húsinu.
Hafði hann gengið frá vélinni og niður á náðhús, en þegar hann kom upp aftur stóð allt herbergið í björtu báli, og var eldurinn þegar svo magnaður, að við ekkert varð ráðið. Slökkvilið var þegar til kvatt, en þegar það hafði komið brunaslöngum fyrir, logaði húsið allt innan.
Veður var blækyrrt, og var því auðvelt verk fyrir slökkviliðið að verja næstu hús. Kjötbúðina og kaupfélagið, enda sakaði þau ekkert. Húsið brann að mestu á tæpri klukkustund. Það féll þó aldrei með öllu, og hangir austurendi þess uppi enn. Slökkviliðið gekk mjög vasklega að verki, eins og svo oft áður, og tókst því að slökkva eldinn að fullu á rúmum klukkutíma.
“Haugasund” var all stórt tveggja hæða hús og stóð þar sem mætast Aðalgata og Suðurgata, á horninu vestan við Lækjargötu. Það var byggt fyrir þá Magnús Þórðarson og Guðbrand Samúelsson veturinn 1919, úr timbri og járnklætt. Núverandi eigendur þess voru þeir H. Thorarensen læknir og Gunnar Bíldal kaupmaður. Bjuggu þeir báðir í húsinu, Bíldal niðri í vesturendanum, en Thorarensen uppi í austurendanum.
Úr íbúð Bíldals bjargaðist eitthvað lítils háttar af innanstokksmunum, en Thorarensen, sem var nýfluttur í húsið og bjó þar einn uppi í austurendanum, bjargaðist slippur og mátti varla tæpara standa.
Tvær sölubúðir voru í húsinu og höfðu eigendurnir þar verslanir, hvor í sínum enda. Úr þeim bjargaðist sama og ekkert.
Húsið var vátryggt í Brunabótafélagi Íslands, vörur Thorarensen munu og hafa verið vátryggðar, en innanstokksmunir ekki. – Húsmunir Bíldals og búðarvarningur mun og hafa verið óvátryggt. Bíða þeir því báðir all-tilfinnanlegt tjón“.
Morgunblaðið birtir fréttina þ. 21. maí 1932
„Húsið Suðurgata 2, „Haugasund”, brann til kaldra kola í morgun. Eldurinn kviknaði frá olíuvjel, sem var notuð við aðgerð á gólfi uppi í vesturendanum. Magnaðist eldurinn svo fljótt, áð húsið varð alelda á svipstundu, en fólk bjargaðist án þess slys yrði af. Sárlitlu af húsmunum var bjargað. Haugasund var tveggja hæða timburhús allstórt.
Áttu þeir það Thorarensen læknir og Gunnar Bíldal. Í húsinu voru tvær sölubúðir og brunnu allar vörubirgðir, sem þar voru. Húsið var trygt í Brunabótafjelagi Íslands. Vörur Thorarensens, sem átti austurenda, munu hafa verið vátrygðar, en Gunnars, sem verslaði í vestari búiðinni, munu hafa verið óvátrygðar. Innbú beggja húseigenda, sem bjuggu í húsinu, voru óvátrygð. — Blíðalogn var og tókst hæglega að verja nálæg hús, án þess þau yrði fyrir skemdum.
(Viðbót síðar í sama blaði.)
Upptök eldsins voru sem hjer segir. — Íbúð á efri hæð hússins, í vesturendanum, var laus, en átti að leigjast ljósmyndasmið. Þar er ljósmyndastofa ásamt myrkraherbergi. Gólfið í því herbergi var óþjett, en var búist við óþægindum af því, er herbergið yrði tekið í notkun, vegna þess, hve vatn yrði þar mikið notað.
Húseigandinn, Gunnar Bíldal, hugsaði sjer að þjetta gólfið með biki, og hafði hann sett það til suðu á olíuvjel, en gengið frá vjelinni síðan, niður í búðina á neðri hæð. — Er hann kom upp aftur, að vörmu spori, var herbergið alelda. Hefir bikið sennilega soðið upp úr og kviknað í öllu saman. Eldurinn magnaðist svo fljótt, að eigi voru tiltök að reyna að bjarga neinu úr húsinu. Kona Gunnars er veik, og hefir verið rúmföst um tíma.
Tókst að bjarga henni úr eldinum, án þess hana sakaði. Tæpar mun hafa staðið fyrir Hinrik Thorarensen lækni að komast klakklaust úr eldinum. Hann var sofandi, er kviknaði í húsinu. Hann komst út í nærklæðum einum. — Hann náði alls engu úr íbúð sinni. Kona hans og börn eru hjer í Reykjavík, hann var nýkominn norður“.
Steingrímur Kristinsson sagði mér af því að faðir hans Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki hefði búið í húsinu þegar það brann, þá aðeins 18 ára gamall. Hann hefði þarna misst þær litlu eigur sínar sem hann hefði þó eignast á unglingsárunum. Þar með talið talsvert af verðmætum frímerkjum sem geymd voru í litlum peningakassa sem fannst ekki í rústunum eftir brunan þó eftir honum væri leitað. Mörgum árum síðar kom í ljós að bæjarmaður hafði fengið nokkuð af misvel förnum frímerkjum sem höfðu greinilega komist í kast við eld og reyk. Hann var inntur eftir því hver hefði látið hann hafa frímerkin og nefndi hann þá einn af slökkviliðsmönnunum.
Valgerður Bílddal sagði frá því að hún myndi vel eftir því þegar húsið brann, en hún var þá komin nokkuð á fjórða ár og bjó þarna ásamt systkinum sínum og foreldrum, þeim Gunnari Bílddal og Eugeniu. Hún sagðist hafa verið borin í sængurfötunum út í bíl sem var í eigu Georgs Sigurjónssonar frænda hennar. Gunnar faðir hennar sem var reyndar hálfbróðir Sóleyjar ömmu minnar átti eftir að upplifa annan bruna á verslun sinni neðar í götunni þar sem hann verslaði m.a. með reiðhjól og rak reiðhjólaverkstæði, en það hús brann í apríl árið 1946.
Forsíðumynd: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins.
Leó R. Ólason.
Heimildir: Ísmús, Jón Hjálmarsson í viðtali við Frosta Fífil Jóhannsson, Steingrímur Kristinsson, Valgerður Bílddal, Einar Kristjánsson, Fram, Siglfirðingur, Morgunblaðið, Minjasafn Akureyrar.
Sérstakar þakkir til Steingríms Kristinssonar vegna hjálpsemi við myndaöflun.
Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fjölmargar fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.