Birt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í frumvarpinu eru tillögur sem ætlað er að mæta áherslum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um jafnvægi á húsnæðismarkaði til að fleiri íbúðir nýtist sem heimili. Frumvarpið er jafnframt hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar á húsnæðismarkaði.
Til að ná framangreindu markmiði eru í frumvarpinu eftirfarandi efnisbreytingar:
- Hert skilyrði skammtímaleigu (heimagistingar)Lagt er til að afmarka skráningarskylda heimagistingu við eina eign einstaklings (lögheimili) innan þéttbýlis. Einstaklingi verður eftir sem áður heimilt að leigja út aðra eign utan þéttbýlis sem er í eigu hans, t.d. sumarbústað. Þá mega samanlagðar heildartekjur vegna útleigðu eignanna eftir sem áður ekki fara yfir 2 m. kr. á ári, né útleigðar gistinætur vera fleiri en 90, líkt og verið hefur.Samkvæmt gildandi lögum er einstaklingi heimilt að leigja út tvær eignir undir skráningarskylda heimagistingu, þ.e. lögheimili sitt og eina aðra fasteign í sinni eigu (innan eða utan þéttbýlis).
- Rekstrarleyfi fyrir gististarfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis gerð tímabundinMeð frumvarpinu er lagt til að tímabinda þegar útgefin rekstrarleyfi til gististarfsemi í íbúðarhúsnæði innan þéttbýlis, til fimm ára í senn, en samkvæmt gildandi lögum eru umrædd rekstrarleyfi ótímabundin.Verði breytingartillagan að lögum, munu umrædd rekstrarleyfi halda gildi sínu í fimm ár frá gildistöku laganna. Að þeim tíma liðnum, þ.e. 1. janúar 2031, munu umræddir rekstraraðilar þurfa sækja um nýtt rekstrarleyfi sé ætlunin að halda áfram rekstri. Fjöldi umræddra rekstrarleyfa til gististaða í íbúðarhúsnæði eru tæplega 400 af þeim 2.085 rekstrarleyfum sem eru virk á landsvísu.
- Heimild fyrir miðlun upplýsinga vegna eftirlits frá ríkisskattstjóra til sýslumanns
Til að efla eftirlit sýslumanns með skráningarskyldri heimagistingu er lagt til að sýslumaður fái heimild til að óska eftir nauðsynlegum upplýsingum hjá ríkisskattstjóra, tekjur og önnur atriði sem kunna að skipta máli vegna eftirlits sýslumanns með skráningarskyldri heimagistingu.
Með breytingartillögunni er ekki opnað á almenna gagnamiðlun milli sýslumanns og ríkisskattstjóra. Upplýsingabeiðnir sýslumanns munu afmarkast við einstaka mál þar sem sýslumaður hefur uppi rökstuddan grun um að aðili sem stundar skráningarskylda heimgistingu hafi gerst brotlegur.
Ætla má að breytingin muni flýta málsmeðferð og rannsókn sýslumanns. Einnig auðvelda sönnun í einstaka málum sem mörg hver flokkast undir auðgunarbrot. Þrátt fyrir að dregið hafi um 30% úr leyfislausri skammtímaleigu undanfarin sjö ár, áætlar sýslumaður engu að síður að um 50% af skammtímaleigu fari enn fram án skráningar eða tilskilinna leyfa. Verði breytingin að lögum má ætla að hún hafi ákveðinn fráfælingarmátt í för með sér.