Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að úthluta heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni samtals 77 milljónum króna til endurnýjunar á tækjabúnaði. Ráðstöfun fjárins byggist á forgangsröðun í samræmi við brýnustu þarfir stofnananna. Víða er uppsöfnuð innviðaskuld sem mikilvægt er að mæta til að efla viðbragðsgetu stofnananna, tryggja gæði þjónustu og öryggi sjúklinga, bæta greiningar- og meðferðargetu og stuðla að hagkvæmari rekstri. 

Varaflstöðvar fyrir 32 milljónir króna

Af þeim 77 milljónum króna sem nú er úthlutað renna 32 milljónir króna til kaupa á varaflsstöðvum sem eru mikilvæg forsenda fyrir órofinni og öruggri heilbrigðisþjónustu ef rafmagn bregst, t.d. í óveðrum eða af öðrum ástæðum. Brýn þörf fyrir úrbætur hvað þetta varðar kom glöggt í ljós þegar fárviðri gekk yfir landið í desember 2019 og olli víða erfiðleikum á heilbrigðisstofnunum þar sem varaafl var ótryggt eða ekki fyrir hendi.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands fær fjármagn til kaupa á varaaflsstöðvum við starfsstöðvar á Húsavík, Sauðárkróki, Blönduósi og Siglufirði og Heilbrigðisstofnun Suðurlands til kaupa á varaaflsstöð í Vestmannaeyjum.

Af því fjármagni sem er til úthlutunar eru einnig veittir styrkir til kaupa á hjartastuðtækjum, ómtækjum, mónitorum, bráðabúnaði fyrir heilsugæslu og flutningskassa fyrir nýbura.

Fjármagn til tækjakaupanna kemur af safnlið almennrar sjúkrahúsþjónustu sem ráðherra er heimilt að ráðstafa til tilgreindra verkefna. Á þessu ári hefur þegar verið veittur rúmlega 140 m.kr. styrkur af safnliðnum til kaupa á tölvusneiðmyndatæki til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.