Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin. Í bókinni er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina.
Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrruml lögreglumaður. Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu. En þrátt fyrir að oft sé um líf eða dauða að tefla þá gerast nú samt spaugilegir hlutir inni á milli og hér á eftir verður greint frá nokkrum þeirra:

Á forsíðumynd má sjá mynd af höfundunum, frá vinstri: Benóný, Júlíus og Páll.

FYRST KOM Í LJÓS STÓRATÁ

Páll segir frá:
„Eitt sinn var ég sendur út á land í fjarlæga sveit til þess að sækja lík af gamalli konu. Þetta var mjög snemma á ferlinum og er mjög minnisstætt. Ég gleymi því ekki þegar ég var lentur og „köttaði“. Það komu þá einhverjir „jakar“ aðvífandi og berandi hvítan stranga á milli sín. Það var blessuð gamla konan, náttúrlega alveg stíf og vafin bara
inn í lök. Hún komst ekki þversum í vélina þannig að það varð að setja hana í sætið fyrir aftan mig svo fæturnir stóðu alveg fram í kúpulinn þannig að þeir sköguðu fram í til mín. Leiðin lá svo til Reykjavíkur og ég tek fram að þetta var nú ekki alveg þýðasta þyrlan á flugi sem völ var á. Fyrir vikið var hristingur og smám saman fór lakið að
flettast af þannig að fyrst kom í ljós stóratá og svo meira og meira af fótunum. Ég átti mjög erfitt með að festa ekki augun á fótunum meðan á fluginu stóð og mér varð ljóst að starf þyrluflugmanns í þjónustu Landhelgisgæslunnar yrði líklega æði fjölbreytt og inn á milli skreytt óvenjulegum uppákomum. Það átti enda eftir að koma á daginn.“

HUNDUR TRYLLIST Í STJÓRNKLEFA

Benóný segir frá:
„Ég fór allavega tvisvar eða þrisvar sinnum í eftirleitir á HUG og MUN. Við vorum með tvo netapoka hvorn sínum megin á belgjunum til þess að flytja kindurnar. Þetta gekk vel og það fannst mér merkilegast hvað vel það gekk að ná rollunum. Þegar maður lenti, þá stóðu þær bara tilbúnar. Hnykluðu brýnnar og bara frusu. Þá var hægt að sækja þær, sem mér fannst merkilegt því að þær vissu ekkert hvað um var að vera. En hundarnir, það gat verið annað mál. Þeir voru auðvitað teknir inn í stjórnklefann og eitt sinn hafði það nærri komið Bjössa heitnum úr jafnvægi. Hann lenti í því að það trylltist hundur í cockpit hjá honum og óð framan í hann. Þetta var eitt það svakalegasta í þessum eftirleitum.“

RÓIÐ Í LAND

Páll segir frá:
„Við Björn Jónsson ætluðum að fara að æfa nokkrar „autorotationir“ á Fossvoginum, það var svo upplagt. Ég held að það hafi verið bara í fyrstu „autorotation“ sem Bjössi sagði mér að slá af mótornum og þá átti vélin að fara í hægagang, en það drapst bara á mótornum. Bara dauðahljóð. Ég er með á tilfinningunni að við höfum verið að slást við „kollektív“ [stjórnun á skurði þyrilblaðanna] þarna báðir alla leið niður. Það er mikið atriði að hafa það rétt, að missa ekki niður hraðann á þyrlunni. En þetta varð bara fín lending á sjónum, það vantaði ekkert upp á það en okkur var náttúrlega brugðið. Ég skal alveg viðurkenna það. Það sást til okkar úr flugturninum – þeir höfðu verið þar að fylgjast með æfingunni. Slökkviliðið skaut strax út slöngubát en þá tók við önnur hörmungin. Þeir komu þjótandi í áttina til okkar en báturinn stöðvaðist svo skyndilega. Í ljós kom að splitti, sem hélt skrúfunni á utanborðsmótornum, hafði gefið sig og þar með varð mótorinn óvirkur. Það var þarna austanvindur og þyrluna
rak hægt fjær landi. Mennirnir í bátnum tóku þá til ára og reru í áttina til okkar án þess að séð yrði að nokkuð drægi saman með bát og þyrlu. Mér leiddist þófið og settist út á flotholtið vinstra megin. Um síðir náðu björgunarmennirnir til okkar, taug var sett yfir í þyrluna úr bátnum og nú var róið til baka af miklum móð. Um síðir var landi náð og við dregnir upp í Nauthólsvík.“
Auðvelt er að sjá spaugilegar hliðar á slíku óhappi þegar allt hefur farið vel að lokum og eftirfarandi dæmi er líka í minnum haft.

HVER YKKAR ER FLUGMAÐURINN?

Benóný segir frá:
„Ég hafði verið að fljúga vélinni um morguninn. Þegar við lentum ætlaði Bogi Agnarsson að taka við henni en Björn Jónsson sagðist vilja fara því hann hefði verið búinn að lofa syni eins flugvirkjans að hann fengi að fara einn hring með sér í reynsluflugi. Svo að Bogi beið bara á meðan og ég með honum. Við hættum fljótlega að heyra í þyrlunni og okkur fór að lengja eftir henni til baka. Við hringdum upp í flugturn eftir góða stund og var þá sagt að Björn hefði orðið að nauðlenda á túninu við Kópavogshælið, þar sem fatlað fólk var vistað. Fólkið af hælinu dreif að og sýndi komumönnum mikla athygli. Lögreglan kom á staðinn, lögreglumennirnir litu yfir hópinn og spurðu: „Hver ykkar er flugmaðurinn?“ Birni mun hafa sárnað þetta eitthvað en hann sagði sjálfur frá þessu síðar.“

Ástæðan fyrir nauðlendingunni var sú að aðalgír þyrlunnar brotnaði. Vélin skemmdist mikið en ekki varð slys á mönnum. Þetta var síðasta flug á þyrlu af gerðinni Bell 47 í þjónustu Landhelgisgæslunnar.

ÞYRLA LÆKNAR FLUGHRÆÐSLU

Bogi Agnarsson flugstjóri:
Það mun hafa verið í byrjun níunda áratugar síðustu aldar að einn af flugmönnum Landhelgisgæslunnar var sendur á TF-GRO (Hughes 500) frá Reykjavík vestur á Breiðafjörð til að aðstoða áhöfnina á v/s Þór við að koma gashylkjum í nokkra vita á svæðinu. Langflestir vitar á þeim tíma voru knúnir með gasi og var það ein af
mörgum skyldum Landhelgisgæslunnar að annast viðhald á þessum vitum í samvinnu við Vita- og hafnamálastofnun. Segir nú ekki frekar af ferð þyrlunnar fyrr en hún lendir á þyrlupalli varðskipsins nokkuð snemma á sunnudagsmorgni. Undirbúningur fyrir verkefni dagsins var langt kominn en þó var tími fyrir flugmanninn til að fá sér kaffisopa og snarl áður en verkið hæfist fyrir alvöru. Eftir að hafa skipst á orðum við skipverja, sem hann þekkti flesta, komst hann að því að varðskipið hafði legið við bryggju um nóttina. Höfðu sumir úr áhöfninni nýtt sér það og „fengið sér í tána“, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eftir að þessum upplýsingum hafði verið gaukað að flugmanninum, sá hann að margir af áhöfninni voru nokkuð illa haldnir eftir þetta næturstopp en þó allsgáðir og vel vinnuhæfir. Hófst nú vinnan, sem gekk vel enda aðstæður góðar. Þegar undirbúningur fyrir síðasta vitann (sennilega Selsker) var hafinn kom í ljós að skipverjum hafði fjölgað um einn. Skyndilega birtist á göngum skipsins spariklæddur, ókunnur ungur maður, sem enginn kannaðist við í fyrstu. Það kom fljótt í ljós að þessi ungi maður hafði hitt nokkra af skipverjum í landi nóttina áður og þar sem hann átti töluvert af víni var honum boðið umsvifalaust um borð þar sem gleðskap var haldið áfram. Um nóttina hafði svo unga manninum orðið ómótt af drykkjunni og hann rambað út úr veislunni í leit að salerni en ekki hafði betur tekist til en svo að hann endaði frammi í bakka. Þar lagði hann sig innan um landfestartóg og keðjur og vissi svo ekki af sér fyrr en um seinan þegar skipið var komið á siglingu, og hann orðinn laumufarþegi. Nú voru góð ráð dýr. Skipherrann spurði flugmanninn hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu að þyrlan tæki manninn og skutlaði honum á fasta landið, og hann gæti svo eftir það séð um sig sjálfur. Flugmaðurinn tók vel í þetta, síðasti vitinn var kláraður og þyrlan lenti að því búnu á varðskipinu til þess að taka eldsneyti fyrir heimferð til Reykjavíkur. Enn kom babb í bátinn. Laumufarþeginn tjáði skipherranum að hann hefði bara einu sinni farið í flugferð á ævi sinni og hann hefði orðið svo skelfingu lostinn að hann hefði heitið því að fara aldrei upp í fljúgandi farartæki á sinni ævi aftur. Því væri það ósk hans að siglt yrði með hann til lands og bætti síðan við að hann væri heimilisfastur í Reykjavík og hefði komið með rútu á Snæfellsnes, bara fyrir tilbreytinguna og til þess að „detta í það“ en ætlunin hafi verið að fara með
rútu til baka til Reykjavíkur þennan dag. Það væri greinilega orðið of seint, og ítrekaði hann ósk sína um að sér yrði skutlað í land. Skipherra varðskipsins, sem var í senn kunnur fyrir „stuttan kveikiþráð“ og allt annað en tillitssemi í orðavali, sneri sér eldsnöggt að laumufarþeganum, setti í brýrnar og hvæsti að honum að hann ætti enga kosti í þessari stöðu aðra en þá sem hann setti honum. Þeir væru að hann færi með þyrlunni ef flugmaðurinn samþykkti það eða að honum yrði fleygt fyrir borð og þá gæti hann svamlað upp á næsta sker eða synt til fastalandsins. Það væri sko alls ekki meiningin að „manúera“ skipinu eftir þörfum hans þar sem fyrirhuguð gæslustörf yrðu úti af Vestfjörðum eftir að þyrlan færi. Eftir að hafa rætt við flugmanninn ákvað laumufarþeginn að þiggja farið með þyrlunni, með semingi þó, því að hann var greinilega órór og var í svitakófi.
Þegar þyrlan hafði verið fyllt af eldsneyti og farið hafði verið yfir nokkur öryggisatriði, var farþeganum komið fyrir við hlið flugmannsins. Flugtakið frá varðskipinu tók greinilega á farþegann því að hann kreisti augun aftur og sjá mátti svitadropa á enninu. Fljótlega eftir flugtak var komið yfir land og flugmaðurinn hvatti farþegann til
að opna augun, og spurði jafnframt hvort lent skyldi þannig að hann gæti farið frá borði. Farþeginn svaraði engu en hristi hausinn til merkis um að halda skyldi áfram.
Leiðin lá um Kerlingarskarð, og þegar Vegamót nálguðust bauðst flugmaður til að lenda þar í nágrenninu, þar sem væri líklegast að fá far í bæinn. Farþeginn, sem var farinn að opna augun, sagðist ætla að harka þetta af sér og það varð úr að hann komst alla leið til Reykjavíkur með þyrlunni. Eftir lendingu þakkaði hann fyrir sig en var þó aumur að sjá. Síðan hringdi hann á leigubíl og fór til síns heima.
Sennilega um tveimur árum seinna var umræddur flugmaður staddur á einu af vertshúsum Reykjavíkur með nýpantaðan drykk fyrir framan sig þegar þjónninn kom skyndilega aðvífandi með sams konar drykk og lét á borðið fyrir framan hann.
Flugmaðurinn ætlaði að segja þjóninum að um einhvern misskilning væri að ræða þar sem hann væri þegar með sinn drykk, en þjónninn sagði að fyrra bragði að þessi drykkur væri í boði annars gests og benti á mann á öðru borði. Í þeim töluðu orðum kom sendandi drykksins askvaðandi með útrétta hönd og spurði flugmanninn hvort
hann myndi ekki eftir sér. Þessu játti flugmaðurinn því að þarna var kominn laumufarþeginn flughræddi, sem var öllu kátari á svip en þegar þeir kvöddust síðast og ekki bara kátari heldur líka sólbrúnn og hraustlegur. Eftir stutt endurkynni tjáði laumufarþeginn flugmanninum að það hefði verið sitt mesta gæfuspor að hafa þegið þessa flugferð frá Breiðafirði til Reykjavíkur, því að síðan þá hefði öll flughræðsla horfið og því til sönnunar sagðist hann nýkominn frá Spáni með kærustunni, sem skýrði sólbrúnkuna, og að fleiri utanlandsferðir væru í bígerð. Slíkt hefði hins vegar verið óhugsandi áður en til þyrluferðarinnar kom. Síðan sátu þeir kumpánar með glas í hönd fram eftir kvöldi í boði laumufarþegans að sjálfsögðu. Lýkur hér með þessari sögu þar sem þyrla læknaði flughræðslu.

TF-RAN til þjónustu
Ný þyrla sótt með varðskipi

Heimflutningur hinnar nýju þyrlu var með þeim hætti að fenginn var bandarískur þjálfunarflugmaður til þess að fljúga henni frá Connecticut í Bandaríkjunum til St. Johns á Nýfundnalandi ásamt Birni Jónssyni, þar sem hún var afhent nýjum eiganda.
Þyrlan skyldi verða komin til St. Johns þann 24. september og hélt varðskipið Ægir af stað þangað 18. september til þess að sækja hana og flytja yfir hafið til Íslands.
Varðskipið var komið á áfangastað degi fyrir fyrirhugaða afhendingu en svo fór, vegna tafa af völdum veðurs, að þyrlunni var ekki lent um borð í skipinu fyrr en fimmtudagsmorguninn 25. september. Var tækifærið notað á miðvikudagskvöldinu til þess að bjóða ræðismanni Íslands í St. Johns ásamt eiginkonu hans og tveimur öðrum til matarveislu um borð í varðskipinu. Tókst með því að endurgjalda heimboð ræðismannsins frá kvöldinu áður, sem hann hélt fyrir yfirmenn skipsins. Í skýrslu Þrastar Sigtryggssonar, skipherra varðskipsins, til forstjóra Landhelgisgæslunnar um ferðina gat hann um kvöldverðarboðið um borð með þessum orðum: „Létu þau vel
yfir íslensku lambasteikinni og orgelglamur, sem þau fengu í seinni dessert, fékk ekki mjög slæma krítík.“ Mun skipið hafa hreppt vonskuveður á leiðinni og því fylgt slæmt sjólag en þrátt fyrir mikinn velting gekk ferðin án skakkafalla og kom Ægir inn í íslenska lögsögu suðvestur af Reykjanesi síðdegis þriðjudaginn 30. september.

Söguleg kveðjuferð

Þegar leiguþyrlunni var flogið út til eiganda síns, var höfð stutt viðdvöl og gist í Aberdeen. Að morgni nýs dags var farið á veðurstofuna í borginni og veðurfræðingur tekinn tali um veðurútlitið fram undan suður yfir Bretland. Hann lýsti veðurhorfum sem aldeilis ákjósanlegum og sá ekkert annað í kortunum en ágætis ferðaveður.
Áhöfn þyrlunnar hélt því af stað, glöð í bragði og vongóð um þægilegt flug. Ekki var þó liðinn hálftími frá flugtaki þegar kom á daginn að allir flugvellir voru lokaðir eða að lokast vegna veðurs, þar með talinn flugvöllurinn í Aberdeen en eini möguleikinn í stöðunni var sá að stefna aftur þangað. Þoka var og dimmviðri þegar komið var á
flugvöllinn og taugar þandar, en þetta var eitt fyrsta blindflug Benónýs, sem var við stjórn vélarinnar. Flugmönnunum var létt eftir lendingu og sátu þeir um stund kyrrir um borð til þess að jafna sig eftir hin óvæntu átök, þegar þeir sáu hvar þota frá British Airways lenti stutt frá þeim. Þá var orðinn svo mikill vatnselgur á flugbrautinni að þotan skautaði út alla brautina og fram af brautarendanum, af svo miklum krafti að dekk fóru af felgum. Þeim til furðu var þotan keyrð af stað á ný og henni ekið í stæði við flugstöðina eins og ekkert væri.
Flogið var yfir til Frakklands og lent í borginni Troyes, sem er skammt austan Parísar, eins og ráðgert hafði verið. Þar átti tollvörður að taka á móti þeim til tollafgreiðslu vélarinnar. Hann lét hins vegar ekki sjá sig og þeir héldu þá fluginu áfram suður til Marseille og skiluðu þyrlunni af sér. Þar fékk áhöfnin heldur óblíðar viðtökur yfirvalda vegna brota á tollareglum. Þótti þeim sem þar væri bakari hengdur fyrir smið.

Spaugilegt ófremdarástand

Aðstaða til geymslu loftfara Landhelgisgæslunnar og viðhalds þeirra var óviðunandi allt frá stofnun flugdeildar og þar til loks var farið í stórfelldar betrumbætur á flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli árið 1985. Skýlið hafði aldrei talist fokhelt til þess tíma, og kuldi, gegnumtrekkur og væta höfðu verið viðvarandi skilyrði flugvirkja og annarra starfsmanna. Ástand bárujárnsklæðingar var orðið svo slæmt að iðnaðarmenn sem sinntu viðhaldi á þaki skýlisins höfðu lent í því að stíga í gegn um það þar sem var mest ryðbrunnið. Páll flugstjóri nýtti reyndar kuldann og trekkinn sér til hagsbóta því að honum þótti kjörið að láta nýveiddar gæsir hanga í skýlinu þar til þær töldust tilbúnar til eldunar.

STJÓRNLAUS BUNA Í STJÓRNKLEFA

Aðbúnaður áhafna er misjafn eftir þyrlum og kemur ýmislegt þar til, svo sem stærð viðkomandi þyrlu, búnaður hennar og fleira. Í minni og jafnvel meðalstórum þyrlum má segja að flugmenn séu að mestu skorðaðir í sætum sínum meðan á flugi stendur og ekkert svigrúm til annars en að sinna stjórn vélarinnar frá flugtaki til lendingar.
Þetta getur verið áraun í tímafrekum verkefnum þar sem ekki er svigrúm til að lenda þó að eitthvað óvænt beri að höndum. Dæmi um þetta er útkall snemma árs 1992 þegar TF-SIF var kölluð vestur á Halamið til leitar að sjómönnum sem var saknað eftir að togari sökk. Það var svo í miðjum klíðum að flugmaðurinn tilkynnti flugstjóra að hann væri kominn í hlandspreng og þyrfti fyrir hvern mun að létta á sér. Ekkert ráðrúm var til þess að fljúga til lands og lenda svo nú voru góð ráð dýr. Stjórnklefinn í vélinni var svo þröngur að ekki var hægt að standa upp og fara afsíðis meðan á flugi stóð þegar náttúran kallaði. Tveir kvenkyns læknar voru komnir til starfa í þyrlusveitinni á þessum tíma og var annar þeirra nú um borð. Hennar ráð var það að hún skyldi setja upp þvaglegg hjá
flugmanninum en það var þá hluti af búnaði læknis um borð. Það hefði verið einföld lausn á þessum aðsteðjandi vanda en þá lausn gat flugmaðurinn með engu móti hugsað sér. Þar með var einsýnt að flugmaðurinn yrði nú að láta gossa í samfestinginn. Einhver mundi þá eftir fötu undan Gunnars majónesi aftast í vélinni, sem höfð var undir tengilínur. Nú var fatan sótt í skyndingu, spilmaðurinn teygði sig með hana fram í stjórnklefann og hélt henni sem næst flugmanninum, sem beraði nú skökul sinn og stóð bunan fljótlega frá honum upp í loft. Spilmanninum tókst
ágætlega upp við að fanga strauminn á niðurleiðinni en þó mátti flugstjórinn hafa sig allan við að víkja sér undan og verja stjórntækin eins og hægt var.

SJÚKLINGURINN BARA HRESS

Páll segir frá:
Snemma í marsmánuði árið 1989 barst beiðni um að sækja veikan skipverja um borð í rússneska rannsóknarskipið Otto Schmidt langt norður af landinu. Við flugum í fyrstu til Sauðárkróks þar sem við fylltum vélina af eldsneyti og héldum svo áleiðis á þann stað sem upp hafði verið gefinn. Staðarákvörðunin var ekki nákvæm og það kostaði nokkra leit að skipinu. Tungumálaerfiðleikar hömluðu líka þar sem enginn um borð í þyrlunni var mæltur á rússnesku. Þegar langt var liðið á daginn sást til rannsóknarskipsins þar sem það var fast í ís. Landgangur frá skipinu lá niður á ísinn og við sáum nú mann í stórum frakka með myndarlega loðhúfu á höfðinu feta sig niður landganginn með snjáða ferðatösku í hendi. Hann vatt sér um borð til okkar með ferðatöskuna og var hinn hressasti. Ég var á þessum tíma slæmur af bakverkjum og gat ekki varist þeirri hugsun á heimleiðinni að sjálfur væri ég eini raunverulegi sjúklingurinn í þessu sjúkraflugi.