Nýstúdentinn, Kristinn Freyr Ómarsson

Stúdentshúfur á Íslandi eiga sér langa sögu en segja má að stúdentshúfan sem flestir nota í dag eigi rætur að rekja til áranna rétt fyrir og eftir 1918, eða til þess tíma sem Íslendingar urðu fullvalda. Saga húfunnar tengist þeim hræringum sem urðu í íslensku þjóðlífi í aðdraganda fullveldis.Eiginlegar stúdentshúfur komu fyrst fram á 19. öld en sá siður nemenda að einkenna sig með höfuðfati eða sérstökum klæðnaði er mun eldri, nær að minnsta kosti aftur til miðalda og jafnvel enn aftar í söguna. Þeir sem höfðu lokið stúdentsprófi gátu hafið háskólanám og húfurnar voru tákn um þau réttindi. Stúdentshúfurnar voru af ýmsu tagi en á mörgum þeirra var skyggnið eitt helsta einkennið. Þegar konur fóru í auknum mæli að ljúka stúdentsprófi og sækja háskóla voru þeirra húfur í fyrstu án skyggnisins en það breyttist síðan.Á Norðurlöndum voru haldin stúdentamót um miðja 19. öld og þegar stúdentar frá mörgum norrænum löndum komu saman skapaðist þörf fyrir að aðgreina sig með ólíkum húfum, bæði milli landa og háskóla. Norskar húfur voru til að mynda með dúski á hliðinni og fellingum á kollinum en sænskar og danskar húfur höfðu sléttan koll.

Mynd af íslenskum nýstúdentum árið 1910. Ein stúlka er þarna í hópi 15 nýútskrifaðra. Á myndinni sjást ýmsar útgáfur af stúdentshúfunni. Sumir eru með bátslaga, skyggnislausa húfu, sumir með hvítan koll en aðrir svartan, einnig sjást danskar húfur

Vitað er að íslenskir stúdentar frá Reykjavíkurskóla (Reykjavíkur lærða skóla), sem nú nefnist Menntaskólinn í Reykjavík, báru danskar stúdentshúfur að minnsta kosti frá síðari hluta 19. aldar. Í vikublaðinu Ísafold í ágúst árið 1900 er birt auglýsing um slíka húfu sem hefur gleymst í gleðskap: “Dönsk stúdentshúfa hefir lent í óskilum í samkvæminu. Með vaxandi þjóðernisvitund í upphafi 20. aldar breytist þetta og segja má að saga stúdentshúfunnar á Íslandi gangi að ýmsu leyti í takt við sögu íslenska þjóðfánans, en fjallað er sérstaklega um hann í svari við spurningunni Hvernig var íslenski fáninn um 1918?Í fróðlegu svari eftir Símon Jón Jóhannsson á Vísindavefnum við spurningunni Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar?(en þetta svar byggir einmitt á því) segir meðal annars þetta um íslensku stúdentshúfuna og tilurð hennar:

Stúdentar og menntaskólanemar skipuðu sameiginlega nefnd veturinn 1906-1907 um húfumálið en lítill árangur varð af starfi nefndarinnar. Árið 1910 komst húfumálið aftur á dagskrá hjá skólafélaginu Framtíð en það voru einkum Héðinn Valdimarsson (1892-1948), síðar stjórnmálamaður og verkalýðsforingi, og Guðmundur Kamban (1888-1945) rithöfundur sem létu málið til sín taka. Héðinn taldi brýnt að teknar yrðu upp íslenskar stúdentshúfur þar sem brátt yrðu brautskráðir fyrstu stúdentar úr íslenskum menntaskóla og íslenskur háskóli tæki senn til starfa. Reykjavíkurskóli var þá ekki lengur konunglegur danskur latínuskóli. Ekki urðu menn þó á eitt sáttir, ýmsar hugmyndir og tillögur að húfum komu fram, nefndir skipaðar um málið og auglýst eftir tillögum í blöðum. Það fór því svo að menn náðu ekki samkomulagi fyrir útskriftina og það sést glöggt á stúdentsmyndinni frá árinu 1910. Sumir báru bátslaga, skyggnislausa húfu, aðrir danskar stúdentshúfur, sumir voru með hvítan koll en aðrir svartan.

Árið 1913 var Anna Louise Ásmundsdóttir (1880-1954), sem síðar stofnaði Hattabúð Reykjavíkur, fengin til að hanna íslenskar húfur en þær voru hins vegar ekkert notaðar. Í janúar 1914 ákvað félag stúdenta síðan að taka upp húfu sem hefði svipaða lögun og sú danska. Helsti munurinn var sá að húfan var með íslensku krossmerki og bláum og hvítum snúrum á borðanum. Árið 1916 var rauðum lit bætt við snúruna og frá þeim tíma hefur snúran verið í sömu litum og þjóðfáninn sem tekinn var í notkun þegar Ísland varð fullvalda árið 1918.

Frá 1916 hefur snúran á stúdentshúfunni verið í sömu litum og þjóðfáninn sem tekinn var í notkun þegar Ísland varð fullvalda árið 1918. Árið 1924 vék krossmerkið svo fyrir fimmarma stúdentsstjörnu. Fimmarma stjarnan er ævafornt tákn sem táknar meðal annars samstillingu hins líkamlega og andlega

Sex árum síðar eða 1924, vék krossmerkið fyrir fimmarma stúdentsstjörnu. Fimmarma stjarnan er ævafornt tákn sem þekktist til að mynda meðal Pýþagórasar (580-500 f.Kr.) og fylgismanna hans en þeir litu svo á að hún stæði fyrir samstillingu hins líkamlega og andlega. Fimmarma stjarnan er einnig kunn af ýmsum fornum skreytingum Etrúra og Egypta og hægt er að lesa meira um tákngildi stjörnunnar í svari við spurningunni Hvað er fimmarma stjarna, fyrir hvað stendur hún?Í stuttu máli má segja að fimmarma stjarna íslensku stúdentshúfunnar eigi að tákna ákveðna tegund af fullkomnun og samræmi líkama og sálar. Með því að taka hana upp í staðinn fyrir krossmerkið var líka hægt að aðgreina íslensku stúdentshúfurnar betur frá þeim dönsku.

Forsíðumynd : Kristín Sigurjónsdóttir
Texti og myndir af vef: Vísindavefsins