Samningurinn grundvallast á nýjum lögum um farsæld barna og kveður á um þróun á samþættu verklagi og úrræðum til verndar börnum gegn ofbeldi samhliða þróun nýrrar aðferðafræði sem greinir og kortleggur arðsemi samfélaga af því að fjárfesta í betri þjónustu við börn.

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og fleiri samstarfsaðila á alþjóðavísu munu á næstu árum vinna náið að þessu verkefni í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið ásamt sérstökum stýrihópi alþjóðlegra og íslenskra sérfræðinga.

Samstarfið felur m.a. í sér þróun og útgáfu verklags og verkfæra sem vernda börn gegn ofbeldi samhliða því að sýna fram á hagrænan ávinning samfélaga af slíkum aðgerðum. Vonir standa til þess að á grundvelli þessa samstarfs muni fleiri aðildarríki taka þátt í að fjárfesta í þverfaglegri, barnvænni vernd og forvörnum gegn ofbeldi gagnvart börnum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Það er engin fjárfesting betri heldur en í börnum – farsæld þeirra skilar sér margfalt út í samfélagið. Síðustu ár höfum við stigið mörg mikilvæg skref í að bæta þjónustu og stuðning fyrir börn og fjölskyldur á Íslandi en meira þarf til. Það er spennandi að finna áhuga innanlands og erlendis á þessu stóra verkefni en það mikilvægasta við þetta formlega alþjóðlega samstarf er aðgengi að og stuðningur frá helstu sérfræðingum á þessu sviði á heimsvísu. Það mun vonandi gera okkur kleift að stíga stærri skref hraðar – allt í þágu farsældar barna og þannig samfélagsins alls.“

Najat Maalla M’jid, sérlegur sendifulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum:

„Ending violence against children through a cross-sectoral, integrated chain of services is an investment with a high return. Building on the experience of Iceland, this important partnership will encourage and invite others to follow this path.“

Á síðasta kjörtímabili hóf mennta- og barnamálaráðherra (þá félags- og barnamálaráðherra) vinnu við undirbúning nýrrar löggjafar sem breyta átti nálgun og verklagi í kringum þjónustu við börn á Íslandi. Þau lög hafa nú tekið gildi og eru lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Snemma í ferlinu lá fyrir að Sameinuðu þjóðirnar hefðu áhuga á verkefninu og var áhuginn bæði á nálguninni við gerð laganna og efni þeirra. Sambærilega löggjöf er ekki að finna á landsvísu neins staðar í heiminum, svo þekkt sé.