Jólaljós tendruð við Tjarnarborg og hátíðarkvöld í miðbæ Ólafsfjarðar - Myndir

Jólaandinn fyllti Ólafsfjörð þegar ljósin kviknuðu á jólatrénu við Tjarnarborg síðasta föstudag. Þar komu íbúar saman til að fagna upphafi aðventunnar við hátíðlega stund þar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir flutti hugvekju og jólatónar hljómuðu frá Tinnu Hjaltadóttur og Guðmanni Sveinssyni.

Börn úr leikskólanum Leikhólum sungu svo af innlifun sín uppáhalds jólalög sem settu notalegan svip á samkomuna. Nokkrir jólasveinar létu ekki sitt eftir liggja. Þeir tóku forskot á sæluna og mættu glaðbeittir til byggða til að heilsa upp á börnin.

Síðar um kvöldið hélt stemningin áfram í miðbænum þar sem haldið var jólakvöld í blíðviðri og góðri stemningu. Jólamarkaður var opinn í menningarhúsinu og í jólahúsunum fyrir utan, og verslanir og veitingastaðir buðu gestum að staldra við fram eftir kvöldi.

Bjössi brunabangsi mætti á svæðið og tók á móti ungum gestum og Húlla Dúlla sá um fjörugt skemmtiatriði sem vakti kátínu meðal barna og fullorðinna.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á viðburðunum í Ólafsfirði og endurspegla vel þá hátíðlegu og hlýlegu stemningu sem ríkti í bænum þegar aðventan gekk í garð.

Myndir: fjallabyggd.is