Skíðafélögin SÓ og SSS buðu íbúum Fjallabyggðar til notalegrar og vel heppnaðrar jólastundar í Skógræktinni á Siglufirði í dag. Að sögn skipuleggjenda var fjölmennt á svæðinu og ríkti afar góð stemning í skóginum, þar sem börn jafnt sem fullorðnir nutu samverunnar.
Skógræktarfélagið bauð upp á afar fallegt greni og var gestum frjálst að taka með sér heim. Margir nýttu tækifærið og tóku með sér ilmandi greni sem minningu um daginn og til jólaskreytinga.
Hugmyndin að viðburðinum kom frá Fjallabyggð, en skíðafélögin SÓ og SSS tóku að sér framkvæmdina. Boðið var upp á heitt kakó og piparkökur og grillaðir sykurpúðar yfir varðeldi slógu heldur betur í gegn. Jólasveinar litu einnig við og glattist bæði börnum og fullorðnum yfir komu þeirra.
Skipuleggjendur senda kærar þakkir til Kidda í Kjörbúðinni fyrir aðstoðina, Skógræktarfélagsins fyrir samstarfið og allra þeirra sem lögðu leið sína í skóginn. Að þeirra sögn er ekki ósennilegt að þessi fallega jólahefð verði endurtekin að ári.
Myndir: facebook / Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg













