Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Kjúklingaborgarar 

  • 4 brioche hamborgarabrauð
  • 4 kjúklingabringur (150 g hver)
  • 1 dl hveiti
  • 2 tsk chilikrydd
  • 2 tsk kúmín (ath. ekki kúmen)
  • 1 msk paprikukrydd
  • 1 tsk salt
  • 1-2 egg
  • 2-4 dl panko (japanskt rasp)
  • kóriander og avókadó til að bera kjúklingaborgarann fram með

Ef kjúklingabringurnar eru þykkar þá er byrjað á að skera þær í tvennt til að fá þær þynnri. Kjúklingabringurnar eru síðan barðar út t.d. með buffhamri.

Blandið hveiti og kryddum saman í grunna skál. Hrærið eggið aðeins upp og setjið í aðra skál. Setjið panko í þriðju skálina. Veltið kjúklingabringunum fyrst upp úr hveitiblöndunni, síðan egginu og að lokum panko. Djúpsteikið kjúklinginn við 160° þar til hann er gylltur og stökkur. Látið renna af honum á eldhúspappír.

Takið brioche hamborgarabrauðin í sundur og steikið í smjöri á pönnu við miðlungshita þar til þau hafa fengið fallegan lit.

Hvítlaukschilisósa:

  • 4 hvítlauksrif
  • hálft lime
  • 1 dl mæjónes
  • 1 dl sýrður rjómi
  • chilisósa eftir smekk (byrjið með 2 msk og smakkið ykkur áfram)

Pressið hvítlaukinn og safann úr lime og blandið með mæjónesi og sýrðum rjóma. Bætið chilisósunni saman við að lokum eftir smekk.

Hraðpækluð gúrka:

  • 1 agúrka
  • 1 msk borðsedik
  • 1 dl vatn
  • 2 msk sykur
  • salt og svartur pipar

Skerið gúrkuna í þunnar sneiðar með ostaskera. Blandið borðsediki, vatni og sykur saman og smakkið til með salti og pipar. Hellið yfir gúrkuna.

Pæklaður rauðlaukur:

  • 2 rauðlaukar
  • safinn úr 2 lime
  • 1/2 dl eplaedik
  • salt

Skerið rauðlaukinn í þunnar sneiðar og blandið saman við hin hráefnin. Látið standa í amk 15 mínútur áður en borið fram.

Setjið hamborgarana saman með sósu, djúpsteiktum kjúklingnum, avókadó, pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og helling af kóriander.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit