SAGA ÞÝSKRA KVENNA Á ÍSLANDI
Sendiráð Þýskalands á Íslandi, Goethe stofnun í Kaupmannahöfn og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO standa fyrir viðburðaröð í júní með þýska rithöfundinum og blaðamanninum Anne Siegel í tilefni 70 ára afmælis komu þýskra landbúnaðarverkamanna til Íslands.
Þann 8. júní 1949 lagði strandferðaskipið Esja að höfn í Reykjavík með fjöldann allan af Þjóðverjum innanborðs. Þetta voru 130 konur og 50 karlmenn sem komu hingað á vegum Búnaðarfélagsins til að starfa sem landbúnaðarverkamenn. Alls komu 314 þýskir verkamenn til landsins 1949 og var þetta stærsti hópur útlendinga sem komið hafði til Íslands fram að þeim tíma, fyrir utan hernámslið Breta og Bandaríkjamanna. Margir settust hér að fyrir fullt og allt og fyrir tíu árum voru afkomendur Þjóðverjanna taldir a.m.k. 2000 manns.
Þýski rithöfundurinn, blaðamaðurinn og sagnakonan Anne Siegel hefur gert sögu þýskra kvenna á Íslandi skil í bók sinni Frauen Fische Fjorde. Þetta er saga kvenna sem af ýmsum ástæðum yfirgáfu Þýskaland eftirstríðsáranna og fluttu til þessarar afskekktu eyju sem sumar hverjar vissu ekki einu sinni hvar var. Anne hitti bæði þýska landnema og afkomendur þeirra þegar hún vann að verkinu og segir sögu þessa fólks á einstaklega lifandi hátt.
VIÐBURÐARÖÐ MEÐ ANNE SIEGEL
Anne er gestarithöfundur Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur og Goethe stofnunar í Gröndalshúsi nú í vor og skipuleggur Bókmenntaborgin viðburði með henni víða um land í júní í samvinnu við Sendiráð Þýskalands á Íslandi. Fyrsti viðburðurinn verður á Bókakaffinu Sæmundi á Selfossi mánudaginn 30. maí kl 16:30 og ferðinni lýkur svo með viðburði á Borgarbókasafninu í Grófarhúsi laugardaginn 8. júní kl. 15, sléttum 70 árum eftir að Esjan lagði að bryggju skammt þar frá. Á þessum viðburðum segir Anne frá tilurð bókarinnar og sögunum sem hún heyrði við gerð hennar.
Spjallið verður á ensku en einnig verður lesinn stuttur kafli úr bókinni Frauen Fische Fjorde í íslenskri þýðingu Magnúsar Diðriks Baldurssonar.
„Anne Siegel lýsir örlögum þýskra innflytjenda af næmi og gefur spennandi innsýn í þýsk-íslenska sögu sem hefur haft mikil áhrif á Ísland og gerir það enn.“ Kristof Magnusson
VIÐBURÐIR MEÐ ANNE SIEGEL:
Dagskráin með Anne Siegel er hvarvetna öllum opin og ekkert kostar inn. Hér fyrir neðan má sjá hvar og hvenær Anne kemur fram.
Fimmtudagur 30. maí kl. 16:30
Bókakaffið Sæmundur á Selfossi.
Föstudagur 31. maí kl. 16:30
Bókasafnið Ísafirði í Safnahúsinu.
Sunnudagur 2. júní kl. 15
Héraðsbókasafn A-Hún á Blönduósi.
Þriðjudagur 4. júní kl. 17
Orðakaffi, Amtsbókasafninu á Akureyri.
Fimmtudagur 6. júní kl. 20:30
Gistiheimilið Tungulending, Húsavík.
Föstudagur 7. júní kl. 17
Félagsheimilið Ásbyrgi, Laugabakka.
Laugardagur 8. júní kl. 15
Borgarbókasafn Reykjavíkur, Grófinni.
70 ÁRUM Á ÍSLANDI FAGNAÐ
Sendiráð Þýskaland og samstarfsaðilar minnast þess með ýmsum hætti í ár að 70 ár eru liðin frá komu Þjóðverjanna til Íslands og er viðburðaröðin með Anne Siegel hluti þeirrar dagskrár. Meðal samstarfsaðila sendiráðsins, auk Bókmenntaborgarinnar, eru Faxaflóahafnir, Borgarsögusafn Reykjavíkur, RÚV, Goethe stofnun í Kaupmannahöfn, Bíó Paradís og HeyIceland.
ANNE SIEGEL
Anne Siegel (f. 1964) býr í Köln. Hún er rithöfundur, fjölmiðlakona og leikskáld. Hún kemur reglulega fram í útvarpi og sjónvarpi auk þess sem hún ferðast víða með bækur sínar og treður upp með einstaklega lifandi frásagnir. Skáldsaga hennar Nordbräute (2015) hefur hlotið mikla athygli og var tilnefnd til Hamburg bókmenntaverðlaunanna sem besta verk upprennandi höfundar. Líkt og Frauen Fische Fjorde tengist hún Íslandi og er fyrsta bókin í þríleik sem snýst um Ísland nútímans. Sú næsta mun bera titilinn Reykjavík Blues.
Meðal annarra verka Anne Siegel er ævisaga Gertu Stern, Senora Gerta (2016), sem komst á metsölulista Spiegel en hún segir sögu austurríska gyðingsins Gertu Stern sem flúði til Argentínu á tímum nasismans ásamt manni sínum. Anne kemur oft til Íslands og er að eigin sögn heilluð af landi og þjóð og þeim sögum sem hér er að finna.
Forsíðumynd: Anne Siegel. Ljósmynd: © Jacobia Dahm