Þorgeir Bjarnason skipar 2. sæti H-Listans í Fjallabyggð.

“Þorgeir Bjarnason heiti ég og er 51 árs gamall Siglfirðingur, hef ég tekið það spennandi og krefjandi verkefni að mér að skipa 2 sæti H-listans. Ég er fæddur á Siglufirði 30 mars 1971 og hef ég alla tíð búið hér. Ég er í sambúð með Guðnýju Huld Árnadóttur leikskólakennara og eigum við saman 3 börn þau Árna Hauk 21 árs, Laufeyju Petru 16 ára og Mundínu Ósk 11 ára.

Ég hef starfað sem málari frá því ég var 18 ára og kláraði ég sveinspróf í málaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1996 og lauk Meistaraprófi í sömu iðn frá Meistaraskólanum 1998. Ég vann hjá föður mínum Bjarna Þorgeirssyni málarameistara til ársins 2009, þá stofnaði ég fyrirtækið Málaraverkstæðið ehf. ásamt samstarfsmanni mínum Mark Duffield. Ég hef einnig starfað sem sjúkraflutningamaður hjá HSN síðan 2006 og hef ég lokið menntun sem neyðarflutningarmaður frá Sjúkraflutningaskólanum.

Samvera og ferðalög með fjölskyldu og vinum eru mín helstu áhugamál hvort sem það sé á skíðum, stangveiði eða útilegum.

Ég hef haft áhuga á stjórnmálum frá því um tvítugt þá aðallega á sveitastjórnarmálum og hef ég starfað í nokkrum nefndum og ráðum fyrir sveitarfélagið, oftast í Umhverfis og Skipulagsnefnd. Íþrótta- og félagsmál hafa alla tíð verið mér hugleikin og er ég og hef verið í stjórnum allmargra félaga hér í sveitarfélaginu.

Ég vona að þú kjósandi góður gefir mér tækifæri á að láta gott af mér leiða fyrir sveitarfélagið á komandi kjörtímabili með því að setja X við H.

Setjum x við H!
Þorgeir Bjarnason
H-Listinn—fyrir heildina”.