Síðustu vikur hefur Leikflokkur Húnaþings vestra verið að æfa leikritið Þytur í laufi-ævintýri við árbakkann.  Leikstjóri er Greta Clough og er þetta fjórða barnaleikritið sem hún leikstýrir fyrir leikflokkinn en hún hefur komið að um 20 barnaleikritum í heild.  Handritið var þýtt af Ingunni Snædal sem nýverið var valin í dómnefnd bókmenntaverðlauna Dyflinnar á Írlandi.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ingunn þýðir fyrir leikflokkinn en þýddi hún einnig handritið að Hér um bil Húnaþing sem leikflokkurinn sýndi 2017.


Í Þytur í laufi er fjöldi þátttakenda á sviði 23 talsins að viðbættum 16 manna hópi í baksviðsstörfum.  Þetta er því stór og góður hópur sem hefur staðið saman að því að koma þessari klassísku sögu um Molda, Greifingja, Todda og félaga þeirra á fjalirnar í Félagsheimilinu á Hvammstanga. 

Sá mannauður sem samfélagið í Húnaþingi býr yfir er dýrmætur fyrir starfsemi eins og hjá leikflokknum.  Oft er um sömu þátttakendur að ræða og er framlag þeirra ávallt mikils virði fyrir leikflokkinn.  Stór hluti þátttakenda eru þau sem standa baksviðs og sjá til þess að ekkert komi í veg fyrir að leikarar geti skilað sýnu á sviði. 

Meðal þeirra sem komið hafa að störfum baksviðs á síðustu sýningum eru Ína Björk Ársælsdóttir, Ólafur Már Sigurbjartsson, Ævar Marteinsson og Erla Björg Kristinsdóttir  

Þau voru fengin til að segja aðeins frá verkefnum sínum fyrir leikflokkinn síðustu ár. 

Ólafur Már Sigurbjartsson: 
Mín helstu verkefni hjá Leikflokki Húnaþings vestra hafa verið í kringum ljósauppsetningu en hef ég líka tekið að mér önnur tilfallandi verkefni í kringum tæknimál.  Er Þytur í laufi fimmta sýningin sem ég tek þátt í og hafa tæknimálin þróast vel, mörg góð skref tekin en auðvitað alltaf hægt að gera meira í okkar kæra félagsheimili.  Eftirminnilegasta sýningin sem ég hef tekið þátt í er klárlega Hárið, sem var frábær sýning í alla staði og náttúrulega ótrúlega skemmtilegt að fara með það á stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu.  Eins var með Pétur Pan sem við fórum með í Kassann.  Þó það hafi verið öðruvísi þá var það engu að síður gaman.   

Ævar Marteinsson: 
Síðan ég byrjaði að starfa með leikflokknum hef ég aðallega fengist við lýsingu í verkefnunum en gripið einnig í hin ýmsu tæknimál.  Ég hef tekið þátt í ótal sýningum, ætli það séu ekki 8-10 talsins sem ég hef komist með puttana í.  Starfsemi leikflokksins hefur eflst mikið síðan ég byrjaði og kröfurnar orðnar meiri og einnig metnaður fyrir sýningum.  Leikflokkurinn hefur verið duglegur að kaupa tæknibúnað í félagsheimilið okkar hér á Hvammstanga sem er mjög flott en húsið okkar þarf engu að síður meira viðhald, m.a. vegna leka og er farið að láta verulega á sjá.  Það er ekki nóg að eiga flottar græjur ef ástand húsnæðis er ekki gott.  Að velja eina sýningu sem stendur uppúr getur verið erfitt en ætli það sé ekki Súperstar sem var fyrsta sýningin sem ég vann með leikflokknum. Þá voru ekki til nein ljós og enginn búnaður. Var allt fengið að láni eða leigt fyrir lítinn pening. Gekk þetta engu að síður upp og dellan fyrir þessari vinnu kviknaði. Það má segja að það sé magnað að frá því Leikflokkur Ungmennafélagsins Grettis og Leikflokkurinn á Hvammstanga sameinuðust í Leikflokk Húnaþings vestra er félagið tvisvar búið að komast með sýningu í Þjóðleikhúsið sem hafa verið mikil ævintýri. Stendur það nú alltaf uppúr að hafa setið í ljósaklefanum í Þjóðleikhúsinu og sýnt tvær sýningar af Hárinu fyrir fullu húsi. 

Ína Björk Ársælsdóttir: 
Það hefur verið virkilega gaman að taka þátt í uppfærslum hjá leikflokknum. Ég hef verið í förðunarteymi og tekið þátt í nokkrum verkum. Sýningin Hárið kannski trónir á toppnum en það var alveg geggjað verkefni sem rataði alla leið á fjalir Þjóðleikhússins. Það er bæði gefandi og skemmtilegt að taka þátt í svona verkefni og það eru allir mikilvægir sem að því koma. Að vera hluti að baksviðsfólki er eitthvað alveg sérstakt og sér í lagi þar sem börn og ungmenni eru stór hluti af hópnum, Þetta er svo mikilvæg starfssemi fyrir samfélagið og að unga fólkið hafi aðgang að þessu frábæra tækifæri er ómetanlegt. Metnaður Leikflokks Húnaþings vestra er hreint ótrúlegur sem sýnir sig með því að vera með þeim fremstu í sinni röð á landsvísu. 

Erla Björg Kristinsdóttir: 
Þytur í laufi er þriðja búningaverkefnið sem ég tek að mér fyrir leikflokkinn, hin verkefnin voru Hárið og Himinn og jörð. Öll þessi verkefni hafa verið skemmtilega ólík með fjölbreyttum persónum og persónuleikum. 

Ég hef alltaf haft áhuga á að raða saman fötum og velja liti og áferðir.  Skemmtilegt er að taka þátt í að búa til persónur á sviði því útlitið á þeim og klæðaburður hefur svo mikið að segja fyrir heildarmyndina. 

Dýrin/ persónurnar í Þytur í laufi sem eru um 40 talsins eru gerðar eftir grunnhugmynd sögunnar en með ýmsum breytingum eftir hentugleika og verið er að nýta það sem finnst hér og þar eins og gengur og gerist. Nú eru dýr í aðalhlutverkum og er Jessica Aquino búin að vera algjör snillingur á saumavélinni að skapa eyru, skott og fleira. 

Söguna Þytur í laufi þekki ég frá því í æsku en man takmarkað eftir henni, það verður gaman að sjá hana lifna við á sviðinu. 

Sýningar leikflokksins á Þytur í laufi verða 14.-17. desember n.k. í Félagsheimilinu Hvammstanga og hefjast allar sýningar kl. 19:30 nema sunnudagssýningin, hún hefst kl. 14:30

Miðasala fer fram á adgangsmidi.is og er miðaverð 4.500 kr.


Myndir: frá æfingu á Þytur í laufi, teknar af Aldísi Olgu Jóhannesdóttur.

Aðsent