Ljóðahátíðin Haustglæður er nú haldin nítjánda árið í röð segir á facebooksíðu Umf Glói og sem fyrr eru það Ungmennafélagið Glói og Ljóðasetur Íslands sem standa saman að hátíðinni.
Hátíðin var fyrst haldin árið 2007, kallaðist þá Glóð og var haldin frá fimmtudegi til laugardags. Það form var allt til ársins 2014 en síðan þá hafa viðburðir hátíðarinnar verið dreifðir yfir haustið og þá breyttist nafn hennar í Haustglæður í takti við það.
Hátíðin hefur verið haldin í samstarfi við ýmsa aðila þá helst menntastofnanir, dvalarheimili og söfn í Fjallabyggð og sérkenni hennar hefur verið að virkja börnin og kynna þeim ljóðlistina. Undanfarin tvö ár hefur hátíðin svo verið að teygja sig inn Eyjafjörðinn og hafa verið haldnir viðburðir bæði á Dalvík og Akureyri.
Haustglæður er líklega lífseigasta ljóðahátíð landsins og samkvæmt nýjustu tölum hafa á undanförnum 18 árum 5555 gestir notið þeirra viðburða sem þar hafa farið fram, ýmis þekkt skáld hafa komið fram, um 200 viðburðir hafa verið haldnir og fræjum ljóðlistarinnar hefur verið sáð hjá ungviðinu. Fræjum sem mögulega spíra og blómstra í framtíðinni.
Sjá myndir: HÉR
Mynd/af facebooksíðu Umf Glóa

