Hár styrkur svifryks hefur mælst á nær öllum loftgæðamælum á Akureyri frá því í nótt. Mengunin er ekki rakin til eldgosins á Reykjanesskaga.
Á vefnum Loftgæði.is kemur fram að mældur sé hár styrkur örfíns svifryks (PM1), sem veldur því að loftgæði flokkast sem óholl. Slík mengun er ólík þeirri sem stafar af eldgosum, þar sem styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) er mælikvarðinn.
Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, staðfestir við Vísi.is að um sé að ræða svifryk. Upptök mengunarinnar kunna að vera í Evrópu eða á hálendi Íslands.
Á öðrum stöðum á landinu hefur gasmengun frá eldgosinu við Sundhnúksgíga mælst, meðal annars á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Reiknað er með að gasmengun mælist á ný í dag á vestanverðu Snæfellsnesi.