Lögregla og aðrir sem fylgjast með netárásum hafa orðið varir við umfangsmikla tilraun til vefveiða á Íslendinga.

Undirbúningur glæpamannanna er vandaður. Þeir byrja með auglýsingum á Facebook þar sem þeir hafa stolið myndum af þekktum Íslendingum. Tilgangurinn er að veiða fólk inn í falska fjárfestinga svikamyllu og þannig stela af fólki peningum.

Ef þið sjáið einhverja af þessum þremur auglýsingum, þá eru þær svindl. Best er að tilkynna þær til Facebook sem svindl en að öðrum kosti hunsa þær alveg. Ef þið klikkið á þær þá farið þið á falska síðu sem líkir eftir mbl.is en er það alls ekki og þaðan er verið að reyna að tæla ykkur yfir á svikasíður sem líkja eftir fjárfestingasíðum en hafa þann eina tilgang að svíkja af fólki peninga, engin raunveruleg fjárfesting á sér stað.

Þessi glæpahópur hefur útbúið mikinn fjölda af þessum auglýsingum og jafnframt sett upp fjölda af netsíðum til að styðja við glæpinn. Umfangið bendir til þess að þarna sé vel skipulagður hópur glæpamanna að baki.

Forsíðumynd sýnir myndir af svikaauglýsingum og gervi fréttasíðum.

Skjáskot/Lögreglan