Lokadagur kosningar um hugsanlega sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar er í dag. Kjörfundur á Hvammstanga er í Félagsheimilinu Hvammstanga og stendur yfir til kl. 17. Lýkur þá ferli sem staðið hefur yfir um nokkurt skeið og hefur verið lærdómsríkt á margan hátt.
Krafturinn í ferli sameiningarviðræðna að mínu mati liggur í því að íbúar eiga alltaf síðasta orðið og taka endanlega ákvörðun segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra.
Engin lágmsrksþátttaka er áskilin og niðurstaðan er bindandi – því er afar mikilvægt að íbúar mæti á kjörstað og láti vilja sinn í ljós, hver svo sem hann er. Í Húnaþingi vestra er alla jafna mjög góð kjörsókn í kosningum og ég bind vonir við að svo verði í þessari segir Unnur Valborg á facebook síðu sinni.
Kjörfundur í Dalabyggð er í stjórnsýsluhúsinu Búðardal og þar er líka opið til kl. 17.




