Um langt árabil hefur það verið baráttumál sveitarstjórna í Húnaþingi vestra að á Hvammstanga verði mönnuð lögreglustöð.

Það er því ánægjulegt að greina frá því að með auknu fjármagni til lögregluumdæmisins frá dómsmálaráðuneytinu verður unnt að manna stöðina Hvammstanga frá 1. september nk. Hefur Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir verið ráðin stöðvarstjóri. Samkvæmt Birgi Jónassyni lögreglustjóra er stefnt að því að á stöðinni verði tveir lögreglumenn sem sinni löggæslustörfum á svæðinu.

Með þessu er öryggi íbúa, ásamt þeim sem fara um héraðið, aukið til mikilla muna, þjónusta sömuleiðis bætt auk þess sem föst viðvera og aukinn sýnileiki lögreglunnar hefur mikið forvarnargildi. 

Lögreglustöðin á Hvammstanga er staðsett á Höfðabraut 6.