Halli á rekstri A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrri hluta ársins 2025 var um 356 milljónum króna meiri en gert hafði verið ráð fyrir í áætlun. Reiknað var með að hann yrði 343,3 milljónir króna en hann reyndist vera 699,7 milljónir króna. Skýringa er helst að leita í umtalsverðri hækkun lífeyrisskuldbindinga og öðrum rekstrarkostnaði sveitarfélagsins.
Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrri hluta ársins var neikvæð um 1.137,5 milljónir króna hjá Akureyrarbæ, en áætlað hafði verið að rekstrarhalli yrði 1.057,9 milljónir á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því 109,6 milljónum króna lakari en áætlun hafði gert ráð fyrir.
Tekjur samstæðunnar voru samtals 19.611 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að þær yrðu 18.823 milljónir. Skatttekjur voru 10.058 milljónir króna sem er 573 milljónum yfir áætlun. Tekjur frá Jöfnunarsjóði voru 2.930,4 milljónir króna sem er 211 milljónum undir áætlun. Aðrar tekjur voru 6.622 milljónir króna sem er 425,8 milljónum umfram áætlun. Tekjur tímabilsins eru því samtals 7.882 milljón krónum hærri en áætlun hafði gert ráð fyrir.
Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 17.761,5 milljónir króna sem er 1.020 milljónum yfir áætlun. Laun og launatengd gjöld voru 11.153,4 milljónir króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 10.970,6 milljónum.
Lífeyrisskuldbindingar hækka talsvert og námu 818 milljónum króna og voru 370,5 milljón krónum umfram áætlun. Annar rekstrarkostnaður var 5.789,6 milljónir króna sem er 466 milljónum yfir áætlun. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur voru 1.078,3 milljónir króna sem er 108,8 milljónum undir áætlun. Afskriftir voru 1.440,8 milljónir samanborið við 1.163,9 milljónir í áætlun.
Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 2.164,7 milljónir eða 12,07% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar voru 2.063 milljónir og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 287 milljónir. Afborganir lána voru 763 milljónir króna. Handbært fé var 2.771 milljónir króna í lok júní.
Fastafjármunir samstæðunnar voru 65.789 milljónir króna og veltufjármunir 8.010 milljónir. Eignir voru samtals 73.799 milljónir samanborið við 72.304 milljónir í árslok 2024. Eigið fé var 29.833 milljónir króna en var 30.534 milljónir um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 35.278 milljónir en voru 34.925 milljónir í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 8.678 milljónir króna en voru 6.845 milljónir um síðustu áramót.
Veltufjárhlutfall var 0,92 á móti 1,10 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 40,4% í lok júní.