Nýhafið er skólaárið 2020-2021 í Grunnskóla Fjallabyggðar. Áfram verður nemendum í 1.-4. bekk gefinn kostur á frístundastarfi strax að loknum skólatíma kl. 13.35 – 14.35. Starfið er fjölbreytt og í samstarfi við íþróttafélög, danskennara og tónlistarskólann. Nemendur eru skráðir í frístundastarfið hálfan vetur í einu. Í undanteknum tilvikum, ef gild ástæða er til, er hægt að endurskoða skráningu 25.-27. hvers mánaðar og tæki breytingin þá gildi um næstu mánaðamót á eftir.

Nú á haustönn 2020 er boðið upp á íþróttaæfingar hjá Ungmennafélaginu Glóa, Blakfélagi Fjallabyggðar, Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar og Tennis- og badmintonfélagi Siglufjarðar. Þeir sem velja íþróttaæfingar greiða æfingargjöld til íþróttafélaga. Bjarney Lea Guðmundsdóttir danskennari býður upp á jazzdans fyrir 3-4. bekk gegn æfingargjaldi. Tónlistarskólinn á Tröllaskaga býður upp á kórstarf og Bílskúrsbandið og er það endurgjaldslaust fyrir nemendur. Önnur gjaldfrjáls viðfangsefni í Frístund eru sund, hringekja (ýmis viðfangsefni) og jazzdansskóli fyrir 1.-2. bekk. Þá geta nemendur nýtt þennan tíma í tónlistarnám séu þeir nemendur í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga.

Yfirlit yfir viðfangsefni í Frístund er að finna hér

Óhætt er að segja að nú þegar skráningu er lokið fyrir haustönn 2020, við upphaf fjórða starfsár Frístundar sé öllum upphaflegum markmiðum hennar náð.

  • Að efla og styðja við félagsleg tengsl og þroska nemenda.
  • Að jafna möguleika nemenda til að stunda tómstundastarf.
  • Að allir nemendur hafi aðgang að félagsskap að loknum skóladegi.
  • Að gefa nemendum kost á að sækja íþróttaæfingar og tónlistarskóla í beinu framhaldi af skóladegi.
  • Að a.m.k. 90% nemenda nýti sér frístund að loknum skóladegi.

Mjög góð skráning er nú í Frístund, sú besta á þeim þremur árum sem hún hefur verið starfrækt því þrjá daga í viku eru um 90% nemenda í 1.-4. bekk að njóta þess sem Frístund hefur upp á að bjóða. 

Skráningin í Frístund er eftirfarandi:

Mánudagur 74 nemendur           80,4% barna í 1-4. bekk
Þriðjudagur 82 nemendur           89,1% barna í 1-4. bekk
Miðvikudagur 84 nemendur       91,3 % barna í 1-4. bekk
Fimmtudagur 82 nemendur       89,1% barna í 1-4. bekk
Föstudagur 57 nemendur.           70 % barna í 1-4. bekk

Að lokinni Frístund tekur Lengd viðvera við fyrir nemendur 1.-4. bekkja og býður upp á afþreyingu til kl. 16:00 á daginn. Að lokinni Frístund, áður en nemendur fara heim eða í Lengda viðveru fá allir ávaxtabita.

Mynd/Fjallabyggð