Unglingameistaramót Íslands er haldið á Akureyri þessa helgi í blíðskaparveðri við góðar aðstæður en nokkuð krefjandi. Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg (SSS) mætti með stóran hóp til keppni og tveir drengir frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar taka einnig þátt. Okkar fólk stóð sig með miklum sóma og var duglegt að skila sér í mark og hala inn stig fyrir sitt lið í stigakeppni bikarkeppninnar þar sem samanlögð stig úr mótum vetrarins telja.

Mundína Ósk Þorgeirsdóttir kórónaði góða frammistöðu sína í vetur með frábærum árangri á þessu móti. Hún kom fyrst í mark í stórsvigi og þriðja sæti í svigi sem þýddi að hún varð önnur í alpatvíkeppninni. Þessi glæsilegi árangur tryggði henni bikarmeistaratitilinn í flokki 14 – 15 ára stúlkna. Vann hún hann með miklum yfirburðum; hlaut samtals 420 stig í mótum vetrarins, um 100 stigum meira en sú sem kom næst.

Steingrímur Árni Jónsson hefur einnig staðið sig mjög vel í vetur í flokki 14 – 15 ára stráka og endaði hann í þriðja sæti í bikarkeppni síns flokks með 236 stig.

Aðrir keppendur stóðu sig einnig með prýði á Unglingameistaramótinu og hafa gert í vetur. Endaði SSS í 5. sæti af 15 félögum í bikarkeppninni í alpagreinum í flokki 12 – 15 ára með 1164 stig og SÓ í 10. sæti með 154 stig.

Mikil stemning hefur verið í keppnishópnum um helgina á Akureyri, hafa keppendur og fjölmennt fylgdarlið notið veðurblíðunnar og ekki síður þess að fylgjast með félögum sínum þeysast niður brekkurnar og ná góðum árangri.

Myndir/ frá Skíðasambandi Íslands og foreldrum í fylgdarliði SSS
Heimild/Frétta- og fræðslusíða UÍF