Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sat reglubundinn ráðherrafund norrænna ráðherra sem haldinn var í Helsinki dagana 30. september og 1. október. Á fundinum komu saman ráðherrar Norðurlandanna og ræddu sameiginlegar áskoranir ríkjanna í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og fólksflutninga.

Á fundinum var áréttað að Norðurlöndin hafi lengi átt í nánu samstarfi í þessum málaflokki og að mikilvægt sé að ríkin verði áfram samstíga, ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem Evrópa stendur nú frammi fyrir.

„Norðurlöndin standa saman í útlendingamálum. Samstaðan gerir okkur betur í stakk búin til að mæta áskorunum og ná stjórn á landamærunum,“ segir dómsmálaráðherra.

Ráðherrar voru einhuga um mikilvægi þess að Norðurlöndin standi þétt saman þegar kemur að reglusetningu og framkvæmd mála er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Brottvísun afbrotamanna öryggismál

Öryggismál voru ofarlega á baugi í allri umræðu á fundinum. Ráðherrar voru sammála um að nauðsynlegt sé að gera úrbætur varðandi brottvísanir afbrotamanna af Schengen-svæðinu.

Ráðherrar Norðurlandanna voru einhuga um mikilvægi samstarfs

Ráðherrar Norðurlandanna voru einhuga um mikilvægi samstarfs

Áhersla var lögð á mikilvægi skilvirkar endursendingar, sem talin er grundvallarforsenda þess að ríkin geti tryggt stjórn á ytri landamærum og viðhaldið trúverðugleika í málaflokknum.

„Ég lagði áherslu á að öryggismál væru í forgangi. Það er sameiginleg áskorun Norðurlandanna að gera brottvísun afbrotamanna skilvirkari. Í síðustu viku mælti ég fyrir frumvarpi sem gerir stjórnvöldum kleift að afturkalla vernd þeirra sem brjóta alvarlega og ítrekað gegn íslenskum lögum. Það er mikilvægt skref í þá átt,“ sagði ráðherra.

Koma þarf í veg fyrir misnotkun á dvalarleyfum

Ráðherrar ræddu einnig fólksflutninga í víðara samhengi og mikilvægi þess að útgefin dvalarleyfi endurspegli raunveruleikann til að koma í veg fyrir hvers kyns misnotkun. Umræður fundarins sýndu að Norðurlöndin eru á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að samræma reglur og nálgun varðandi veitingu slíkra leyfa.

Ítarleg greining hefur átt sér stað að undanförnu á útgáfu dvalarleyfa á Íslandi. Ráðherra setti saman starfshóp á vormánuðum til að yfirfara reglur um dvalarleyfi. Fyrstu niðurstöður hópsins benda til þess að frá 2017 til 2024 hafi íbúum Íslands fjölgað hlutfallslega meira en í öðrum Norðurlöndum og að á síðustu árum hafi verið veitt allt að 64% fleiri dvalarleyfi hér á landi en í nágrannaríkjunum miðað við mannfjölda. Niðurstöður hópsins verða kynntar á næstunni.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra

„Loksins liggja fyrir greiningar á útgáfu dvalarleyfa og við þurfum að horfast í augu við það að breytingar eru nauðsynlegar. Vinnan er langt komin og ég mun leggja fram mikilvægar breytingar til að afmá séríslenskar reglur og bregðast við alvarlegum ágöllum í dvalarleyfiskerfinu,“ segir ráðherra.

Áframhaldandi stuðningur við Úkraínu

Í ljósi áframhaldandi innrásar Rússlands í Úkraínu lögðu ráðherrarnir mikla áherslu á áframhaldandi samstöðu við ríkisborgara Úkraínu. Á síðasta ári framlengdu öll Norðurlöndin tímabundna vernd til þeirra. Á fundinum ræddu ráðherrarnir hvernig nálgast mætti í sameiningu aðgerðir þegar kemur að ríkisborgurum Úkraínu sem hlotið hafa tímabundna vernd innan Evrópu.

Á forsíðumynd eru þau Kristine Kallset, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, Mari Rantanen, Anders Hall og Rasmus Stoklund sem sátu sameiginlegan fund norrænna ráðherra útlendingamála í Helsinki.

Myndir/aðsendar