Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við embætti landlæknis stendur fyrir norrænni ráðstefnu um áfengi og lýðheilsu á Grand hótel Reykjavík 19. september næstkomandi. Ráðstefnan er liður í viðburðum sem efnt er til í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Ráðstefnan fer fram á ensku og ber yfirskriftina Alcohol and Public Health in the Nordics.
Á ráðstefnunni verður fjallað um skaðsemi áfengis í víðu samhengi, samhengi greiðs aðgengis að áfengi og aukinni notkun þess, um árangursríkar forvarnir á grundvelli gagnreyndrar þekkingar og stefnumótun á þessu sviði. Fyrirlesarar á ráðstefnunni koma víða að og búa að víðtækri þekkingu og reynslu á sviði rannsókna og stefnumótunar á sviði áfengismála og forvarna.
Ráðstefnan hefst kl. 8.45 með ávarpi Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra. Fyrirlesarar eru Maria Neufeld og Carina Ferreira-Borges frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, Dr. Jürgen Rehm hjá Centre for Addiction and Mental Health (CAMH), Maik Dünnbier frá alþjóðlegu forvarnarsamtökunum Movendi International, Nadja Frederiksen frá Nordens välfärdscenter og Ismo Tuominen frá heilbrigðisráðuneyti Finnlands. Íslenskir fyrirlesarar á ráðstefnunni eru Margrét Lilja Guðmundsdóttir hjá Planet Youth, Lára G. Sigurðardóttir læknir hjá SÁÁ og Gunnar Hersveinn heimspekingur. Í lokin talar Alma Möller landlæknir og slítur ráðstefnunni.
Ráðstefnan á Grand hótel hefst kl. 8.45 og lýkur kl. 16.00. Hægt verður að fylgjast með í beinu streymi.
Skráning þátttöku er hafin og er gert ráð fyrir að fólk skrái þátttöku sína, jafnt þeir sem verða á staðnum og þeir sem fylgjast með í beinu streymi.
Mynd/aðsend