Í sumar barst Sveitarfélaginu Skagafirði fyrirspurn um hvort hægt væri að koma fyrir bekk í brekkunni hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Fylgdi fyrirspurninni að einstaklingar sem nýta sér þjónustu dagdvalar aldraðra fari iðulega þessa leið og gott væri að geta hvílt sig á leiðinni upp brekkuna og notið útsýnisins.

Fljótt var brugðist við fyrirspurninni og komu starfsfólk þjónustumiðstöðvar Skagafjarðar fyrir bekk í brekkunni. Um er að ræða bekk sem er í eigu garðyrkjudeildar og því um tímabundna lausn að ræða. Unnið er í samvinnu við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að koma fyrir varanlegum bekk í brekkunni.

Sveitarfélagið vill benda á að hægt er að senda inn ábendingar og fyrirspurnir í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins undir flipanum „Ábendingar“ neðarlega til hægri á forsíðunni.

Mynd: Sveitafélagið Skagafjörður