Stjórn Samkaupa
Keflavík

Það er mér óskiljanlegt að Umhverfis- og tæknideild, bæjarstjórn, í samráði við arkitekt á ykkar vegum, hafi gefið leyfi til að koma með tillögu að verslunarkjarna í miðbæ Siglufjarðar.

Ég skil það vel að þið viljið bæta aðstöðu viðskiptamanna og ekki síður aðstöðu ykkar frábæra starfsfólks en það er sjálfsögð krafa að það sé gert í sátt við umhverfið og bæjarbúa.

Á heimasíðu ykkar má m.a. sjá eftirfarandi:
Umhverfið
Samkaup ætla að vera leiðandi í umhverfismálum á smásölumarkaði. Samkaup leggja áherslu á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni og nýta auðlindir eins og kostur er. Umhverfisstefnan nær til allrar starfseminnar.

T.ark arkitektar hafa lagt fram tillögu að verslunarkjarna í miðbæ Siglufjarðar. Tillagan er eftirlíking af gömlum sveitabæjum með tilvísun í falleg og reisuleg hús Síldarminjasafnsins. Er hægt að sjá einhverja samlíkingu og fellur þessi hugmynd að nærumhverfi? Það skiptir ekki máli hvaða húsagerð arkitekt hefði komið með að bygging á þessum stað, er ekkert annað en skemmdarverk á fallegum miðbæ.
 
Í grein í Morgunblaðinu 17.janúar síðastliðin, Umdeildur verslunarkjarni á Siglufirði, segir m.a. „Þegar blaðamaður ber umsagnir bæjarbúa og hagsmunaðila undir arkitektinn er snúa að staðsetningu þetta nærri fallegu miðsvæði bæjarmyndarinnar bendir hann (arkitekt) á að í dag sé á  umræddri lóð salernisaðstaða í einum skúr og yfir ferðamannatímabilið á sumrin séu þar húsbílar” og heldur svo áfram “Er það svona falleg bæjarmynd?” tilvitnun líkur.

Ég átta mig ekki á hvaða sviðsmynd arkitekt sá þegar hann skoðaði umrætt svæði ef hann sá ekki annað en fyrrnefndan „skúr og húsbíla“ og hefur ekki tekið eftir fallegum byggingum sem hann ætlar að loka af með tillögu sinni. Tillaga arkitekts gerir líka m.a. ráð fyrir að þrengja að aðkomu að fyrrnefndum byggingum frá Gránugötu með sorpgeymslu, er það boðlegt af hönnuði að leggja fram slíka tillögu. 

Til frekari upplýsingar fyrir stjórnarmenn þá eru þarna uppgerðar verbúðir, Bláahúsið og Torgið (Hannes Boy) sem í dag er veitinga- og samkomustaður, og í suður blasir við eitt fallegasta hótel landsins Sigló- hótel. Falleg miðbæjarmynd.

Ég leyfði mér að benda arkitekt á, á íbúafundi 6. nóvember síðastliðinn, þar sem kynntar voru tillögur að nýbyggingu verslunarkjarna, að hann hefði lítið kynnt sér sögu Siglufjarðar. 

Hver er ásetningurinn með að loka af fallegu uppgerðu verbúðirnar og breyta þeirri fallegu miðbæjarmynd sem við eigum og er einstök á landsvísu?

Siglufjörður er ekki stór bær og ca. 1/2 klst.tekur að ganga milli ystu- og syðstu byggðar. Lóðir sem nefndar hafa verið, ekki miðbæjarlóð, eru í góðu göngufæri. Í dag fara lang-flestir á bíl/hjóli í verslunarferð og til annarra erinda. Fyrir ferðamenn skiptir staðsetning verslunar ekki miklu máli.

Má ekki m.a. skoða þær tillögur sem gerðar voru fyrir nokkrum árum, að stækka núverandi verslun inn í bakkann að vestan. Þær hugmyndir fengu á sínum tíma jákvæða umfjöllun en voru aldrei kláraðar. Þessar hugmyndir voru ekki kynntar almenningi. Bílastæði eru oft vandamál og var athugað að færa götu fyrir framan verslun til austurs, sneiða af torgi og fjölga bílastæðum. 

Á fyrrnefndum íbúafundi gerði lögmaður Selvíkur ehf. grein fyrir samkomulagi milli Selvíkur ehf. og Fjallabyggðar um uppbyggingu í miðbænum. Ef farið hefði verið í framkvæmdir samkvæmt deiliskipulægi miðbæjar væri þessi umræða ekki í dag um staðsetningu verslunarkjarna. Í lok fundar hafði fundarmaður orð á því að ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af gömlum samningum, engin viðstaddur bæjarfulltrúi sá ástæðu til að mótmæla því. 

Þið gerið daglega samninga við verktaka og birgja og þekkið því mikilvægi þess að standa við gerða samninga.

Það eru daglegar fréttir og myndir af græðgivæðingu, virðingarleysi fyrir umhverfinu og íbúum í boði kjörinna fulltrúa því þeirra er ábyrgðin.

Í skýrslu Strategiu, Stjórnsýslu-og rekstrarúttekt Fjallabyggðar, sem var afhent bæjarfulltrúum í maí á síðasta ári og við bæjarbúar fengum í nýársgjöf, fengu tæknideild og kjörnir bæjarfulltrúar falleinkunn.

Ég vill biðla til stjórnarmanna Samkaupa að endurskoða snarlega áætlun sína um byggingu verslunarkjarna í okkar fallega miðbæ og taka ekki þátt í því skemmdarverki sem bygging á þessum stað hefði í för með sér heldur finna farsæla lausn sem yrði fyrirtækinu til sóma. Kæmi til greina, ágætu stjórnarmenn, að þið tækjuð þátt í svona tillögum í ykkar heimabyggð, ég efast um það.

Starfsfólk Kjörbúðar í Siglufirði á mikið þakklæti skilið fyrir frábæra þjónustulund og þátttöku í ýmsum uppákomum með framlögum sem við fáum seint metið. Með umfjöllun um staðsetningu nýbyggingar er alls ekki verið að deila á nokkur hátt á það góða starfsfólk sem þar vinnur. 

Með vinsemd og virðingu,
Konráð Karl Baldvinsson 
Íbúi í Siglufirð, Fjallabyggð

Ágætu bæjarfulltrúar Fjallabyggðar
Ágætu bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna í Fjallabyggð