Stígar í fjallshlíð á Ólafsfirði kunna að auka hættu á skriðuföllum
Ofanflóðasérfræðingar Veðurstofu Íslands fóru í vikunni á vettvang að beiðni bæjaryfirvalda í Ólafsfirði til að skoða nýja stíga sem Skógræktarfélag Ólafsfjarðar hefur lagt í fjallshlíðina ofan bæjarins segir á vefsíðu RÚV.
Við fyrstu skoðun kom í ljós að ganga þarf betur frá framkvæmdunum. Stórir steinar höfðu losnað við stígagerðina, eru óstöðugir og geta oltið niður hlíðina. Enn fremur er óljóst hvort nýju stígarnir hafi áhrif á farvegi þeirra drenskurða sem grafnir voru eftir aurflóðið 1988, eða hvort vatn gæti safnast fyrir á nýjum stöðum í brattlendinu.
Á meðan ekki er um vatnsveður að ræða er engin bráð hætta til staðar. Hins vegar þarf að fylgjast sérstaklega með svæðinu ef mikið rignir eða leysingar verða á komandi vori.
Bærinn stöðvaði stígagerðina í síðasta mánuði eftir ábendingar frá íbúum sem búa fyrir neðan svæðið. Þá var gagnrýnt að framkvæmdirnar hefðu verið hafnar án samráðs við sveitarfélagið.
Mynd/ Veðurstofa Íslands – Sveinn Brynjólfsson