Í síðustu viku var handagangur í öskjunni á Hótel Siglunesi. Tuttugu og fjórir fræðimenn frá Póllandi, Hollandi, Þýskalandi og Rússlandi sátu ráðstefnu um byggðamál þar sem þeir kynntu sér byggðamál á Siglufirði, Akureyri og Sauðárkróki. Vitaskuld var yfirskriftin yfir deginum á Siglufirði “From Herring to High Technology” en bæjarstjórinn Gunnar Birgisson, frumkvöðullinn Róbert Guðfinnsson, sagnfræðingurinn Steinunn M Sveinsdóttir og vísindamaðurinn Hilmar Janusson fræddu þátttakendur um sögu Siglufjarðar frá síldarævintýrinu og hvarfi síldarinnar til uppbyggingar hátækni og ferðamennsku. Einnig vöktu störf Ríkeyjar Sigurbjörnsdóttur sem sinnir samþættingu skólamála í Fjarðarbyggð athygli. Þátttakendur ræddu hversu mikilvægt það er fyrir komandi kynslóðir að kenna árgöngum fjarðanna saman – því þannig er búin til menning byggðarlags sem er eitt til framtíðar.
Á öðrum degi var farið til Akureyrar þar sem bæjarstjórinn Ásthildur Sturludóttir ávarpaði hópinn ásamt fráfarandi forseta Viðskipta og raunvísindasviðs HA, Guðmundi Kristjáni Óskarssyni en Vífill Karlsson flutti erindi um rannsóknir sínar á landsbyggðinni þar sem kom fram hvaða lífsgæði skipta fólk mestu máli og hvað það er sem fær fólk til að flytjast ekki burt. Að erindum loknum var haldið á Mývatn og skoðað hvernig ferðamannaiðnaðurinn þar hefur vaxið.
Síðasti dagur ráðstefnunnar var vitaskuld á Sauðárkróki – bæjarfélaginu þar sem útgerð, landbúnaður, hátækni, háskólakennsla og byggðastefna voru í fyrirrúmi. Arnar Már Elíasson og Snorri B Sigurðsson frá Byggðastofnun fræddu ráðstefnugesti um byggðastefnu á Íslandi. Eftir það var farið í frystihúsið, vísindagarðana, skinnasöluna og hitaveituna.
Alls staðar var tekið á móti gestum af einstakri íslenskri gestrisni en hluti af starfsemi Mundo er að ferðast innanfrá um landið og búa til þekkingu. Verður að segjast að ráðstefna þessi hafi verið einstaklega vel heppnuð og vonandi skilar það sér í fleiri slíkum hópum. Þátttakendur ráðstefnunnar eru allir starfandi rektorar og deildarforsetar í heimalöndum sínum og meðal þeirra var einnig fyrrverandi menntamálaráðherra Póllands. Mundo þakkar öllum þeim sem tóku fólkinu opnum örmum.
Fréttatilkynning.
Mynd og texti: Margrét Jónsdóttir Njarðvík