Margar kynslóðir Siglfirðinga minnast þess að hafa safnað í brennu og sagan segir að þegar sem mest var, voru minnst, 3-4 brennur, jafnvel fleiri, samtímis um áramót í þessu litla bæjarfélagi á norðurhjara veraldar. Mikil samkeppni skapaðist milli bæjarhverfa um að safna í flottustu brennuna í bænum. Jólin eru vissulega hátíð ást og friðar, en óhætt er að sega að á þessum brennu söfnunartímabilum, skapaðist hálfgert stríðsástand með tilheyrandi skæruhernaði milli hverfa. Á forsíðu myndinni má sjá tvo gamla báta brenna, en það var um tíma algengt að reisa upp fornminja-báta og fylla millibilið með ýmsu brennanlegu og úr þessu varð svakaleg áramótabrenna.

Á Sigló er einnig löng hefð fyrir því að lýsa upp tilveruna kringum jól og nýár með litríkum ljósaperum.
Enda hverfur sjálf sólin ásjónu Siglfirðinga, frá miðjum nóvember og fram í lok janúar. Ljósin í Hvanneyrarskál með tilheyrandi ártali sem blasir yfir bæinn á sér líka langa og merkilega sögu og enn er þetta lengsta jólasería Íslands og ekki má gleyma stóra jólatrénu á Ráðhústorginu og gríðarlega metnaðrarfullum jólaskreytingum verslana í miðbænum.

Sjá meira hér af minningum og myndum um jólastemminguna við Aðalgötuna o.fl:

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

Ljósin í Hvanneyrarskálinni eiga sér langa og merkilega sögu

Það er ekki hægt að minnast á Siglfirsk áramót án þess að minna á söguna um ljósin í Hvanneyrarskál og styðst pistlahöfundur hér við áráðanlegar heimilir með merkilegu ljósmyndum, sem Helga Sigurbjörnsdóttir tók saman og birti 2011 á siglo.is.

En þar koma eftirfarandi staðreyndir fram:

“Blys voru í fyrsta sinn tendruð á brún Hvanneyrarskálar á þrettándanum 1947. Í dagbók lögreglunnar á Siglufirði 6. janúar 1947 er bókað: Klukkan 20.45 var kveikt á blysunum upp í Hvanneyrarskálarbarminum og náðu blysin upp í hlíðar báðum megin við Hvanneyrarskálina. Blysin voru samtals 35, auk allmargra smærri blysa í hlíðinni neðan við Hvanneyrarskálina. Starfsmenn úr S.R. útbjuggu blysin.

Brún Hvanneyrarskálar hefur verið lýst upp um hver áramót síðan.”

Fyrsta ártalið birtist síðan 1953

Eftirfarandi ljósmyndir segja okkur mikla sögu, um hversu mikið var á sig lagt til að gera Siglfirsku áramótin einstök og eftirminnileg.

Í blaðinu Ísafold og Vörður, 6. janúar 1953, segir svo:
“Á vegum skíðafélaganna á Siglufirði hafði verið komið fyrir fjölda blysa í Hvanneyrarskál ( á gamlárskvöld 1952), þannig að fremri  brún skálarinnar var þakin blysum frá norðri til suðurs. Um kvöldið var kveikt á öllum blysunum samtímis.

Laust fyrir miðnætti kom önnur ljósadýrð litlu sunnar í fjallinu, beint upp af bænum og eftir að þessi ljósadýrð hafði fengið fast form kom út ártalið 1953. Var þessu mjög smekklega fyrir komið. Svo kyrrt var að kerti loguðu úti hvar sem var í bænum.

Þetta var í fyrsta sinn sem logandi ártal var sett með kyndlum í fjallið ofan við bæinn, undir syðsta Gimbraklettinum. Um það sáu nokkrir ungir menn og var Ragnar Páll Einarsson listmálari, foringi fyrir þeim hópi, svo sem frá er greint í Hellunni árið 1991. Þeir héldu þessum sið um fimm áramót.

Síðar settu Skíðafélagsmenn ártalið neðan við ljósin á Hvanneyrarskálarbrún.”

ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér stærri.

Rafmagns lýsing kom áramótin 1962/63

Í Siglfirðing, 21. janúar 1963, er sagt að: “Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg, sá um áramótaskreytingarnar í Hvanneyrarskál og fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn, með líku sniði og verið hefur.

Að þessu sinni ( á gamlárskvöld 1962 ) var lýsing skálarinnar og ártalið raflýst, sem er einsdæmi hérlendis, og var hið fegursta. Síðan segir að þessi lýsing hafi gert Siglufjörð öðrum bæjum sérstæðari í áramótaskreytingum.”

Heimildir lánaðar frá::

Mynd vikunnar-Blys á brún Hvanneyrarskálar

sksiglo.is | Almennt | 18.03.2011 | Helga Sigurbjörnsdóttir | Lestrar 558 |

Einnig er hægt að lesa meira hér: Ljósin í Hvanneyrarskál, en þar er meðal annars minnst á að Bjarni Þorgeirsson (Bjarni Málari) hafi frá 14 ára aldri, verið á ýmsan máta viðriðinn uppsetningu ljósana í Skálinni.

Að safna í brennu

Í sumarleikjum og ævintýrabardagaleikjum barna og unglinga, var bænum lengi vel skipt upp í yfirráðasvæði og sama hefð virðist ráða þegar kemur að því að safna í áramótabrennur. Gegnum árin er þetta eflaust eitthvað breytilegt, en í stórum dráttum var það oft þannig að suður-suðurbæjarguttar voru eigin hópur og svo um tíma einnig sameinaðir Húnar á svipuðu svæði, Brekkuguttar voru með sitt eigið Brekkufjallasvæði, Villó í sínu flata Villimannahverfi og svo réðu Bakkaguttar ríkjum í norðurbænum. Það getur líka vel verið að krakkarnir í Reitnum svokallaða, hafi einnig haft eigin brennu. Bæði stelpur og strákar tóku þátt í efnissöfnun í brennur.

Mesti vinnutíminn við efnissöfnun voru vikurnar fyrir jól, en mig minnir samt að margir hafi haft áramótabrennur í huga allt árið og líklega lagt undan efni á leynistaði og jafnvel skipað foreldrum að spara brennuefni í heimahúsageymslum. Einnig vil ég minnast þess að oft voru reistir háir staurar með mikilli fyrirhöfn á þeim stöðum sem fyrirhuguð brenna átti að verða. Brennuefninu hlaðið í kringum þennan staur, sem oftast var rekaviðardrumbur eða gamlir bryggju og tréljósastaurar.

Undirritaður lenti nýlega á netspjalli við ónefndan eldri Brekkugutta, sem sagði mér eftirfarandi skemmtilegu brennusöfnunar sögu:

“Við vorum 4-5 guttar að þvælast niðrá Eyrinni í efnisleit og hittum þá Daníel Þórhalls og spurðum eftir brennuefni. Hann gaf okkur nokkrar gamlar hálfónýtar síldartunnur og við byrjuðum að rúlla þeim áleiðis upp í fjall. Á efri hluta Gránugötu mættum við Hansa í Egilssíld og hann fer að spyrjast fyrir um tunnurnar. Honum finnst þær í fínu lagi og keypti þær af okkur fyrir nokkrar krónur og fórum við strax og keyptum okkur gotterí á Bíóbarnum. Eftir nokkra stund þá sáum við að Hansi hafði sett tunnurnar á bak við hús og við gátum ekki stillt okkur og stálum þeim og rúlluðum þeim í burtu og bönkuðum síðan upp á í Egilssíld og þóttumst hafa fengið fleiri tunnur.

Síðan seldum Hansa sömu tunnurnar aftur.”

Það er sem mig minnir að bæjaryfirvöld hafi haft eftirlit með því að einhverjir eldri hálf fullorðnir krakkar voru skráðir fyrir leyfi og útnefndir brennustjórar. Yngri krakkarnir voru vinnumaurar og fóru út um allan bæ með sleða og snjóþotur og drógu björg í brennubú. Það var þrælavinna að draga þungt efni í snjósköflum upp í veglaust fjalllendi. En sem dæmi um þátttöku fullorðna, er t.d. að olíufélög bæjarins gáfu oft olíu í eldinn og voru brennurnar vel olíublyittar áður en kveikt var í þeim.

Eldri krakkarnir voru hleðslustjórar og vöktuðu og vörðu samtímis brennusvæðið fyrir árásum og efnisþjófnaði skæruliðana úr nágrannahverfinu. Einhverjar sögur eru til af því að brennur hafi brunnið niður löngu fyrir jól. Það gat stundum verið þó nokkuð mikil harka í þessum hverfa-bardögum, t.d. eins og ég sjálfur hef viðurkennt í þessari skæruliða afbrotasögu:

Siglfirskur skæruliðaglæpur úr barnæsku viðurkenndur

Ég flutti í suðurbæinn haustið 1968 minnir mig, en þá var Hafnartún 6 syðsta húsið í þeirri götu og eitthvað rámar mig í áramótabrennu á túnunum þar sunnan við. En flestar af mínum brennuminningum koma frá byrjun áttundaártugs síðustu aldar, en þá er einhver viðsnúningur í brennumálum hjá bæjaryfirvöldum og aðeins veitt leyfi fyrir einni áramótabrennu á Leirutanga. Þangað voru t.d. gamlir nótabátar dregnir og reistir upp á endann og festir saman í stefninu og síðan fylltum við nú sameinuð bæjarbörn vel upp í gapið á milli bátana. Nálægðin við öskuhaugana á Leirutanga stytti okkur líka sporin eftir brennuefni. Líklega urðu á þessum tíma ýmsar síldarævintýris fornminjar, ágætis uppfyllingarefni í áramótabrennur.

Líklega hafa þessar breytingar í brennusöfnunar hefðinni sterkt samband við hversu margir flytja úr bænum eftir síldarhvarfið. Siglfirski sögumaðurinn Albert Einarsson, birti nýlega sögugreinina: “Fólkið sem flutti og hinir sem fluttu ekki, og þó” og þar koma fram eftirfarandi tölur:

Á árunum 1962 til 1969 fækkaði íbúum á Siglufirði um 377 og fram til 1974 fækkar enn um 168 íbúa.
Það er fækkun um 545 manns frá 1962 til 1974.

Hmm… 🤫 Já, þetta var sorglegt tímabil og það er kannski ekki fjarri lagi að áætla að rúmlega helmingurinn af þessum 545 manns, hafi verið börn og unglingar á brennusöfnunaraldri.

ATH. Albet Einarsson birti nýlega þessa skemmtilegu brennusöfnunar sögu hér á trölli.is:

Áramótabrenna

Áramótabrennurnar á Leirutanganum voru risastórar og oft brann bátaefnið í fleiri daga. Mikil stemning myndaðist í kringum brennuna með grímubúningaklæddum börnum, álfadans og söng. Vert er einnig að minna á, að heima á Siglufirði hefur lengi verið hefð fyrir grímubúningagerð, eins og sjá má í þessari myndasyrpusögu:

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / Myndasyrpusaga

Allir biðu síðan eftir því að ártalið í Hvanneyraskál breyttist og þá fóru flugeldasýningar bæjarbúa og neyðarblys frá bátum og skipum í loftið. Áramótabrennurnar bræddu síðan saman gamla og nýja árið.

ATH. Smellið á mynd og hún birtist þér í fullri stærð.

Margir minnast þess eflaust hvað við börnin vorum upptekin í þessari brennusöfnun og þessu fylgdi mikil hreyfing og holl útivera. Yfir jóla og áramóta hátíðardaga var maður stanslaust upptekin í að fara á t.d. fyrst á Litlu jólin í skólanum og síðan á jóla skemmtanir hjá félagasamtökum. Maður mátti varla vera að því að skreppa á skíði.

Þetta var fleiri vikna barna hátíðarvertíð, allt gat gerst og allskyns furðuverur birtust manni yfir jól og áramót.

Að lokum:
Gamlar áramótaljósmyndir.

Það er einstaklega gaman að geta séð munin á nútíma ljósmyndatækni varðandi kvöld og næturmyndatökur og þeim takmörkunum sem hér áður fyrr snýr að ljósnæmni á þeirra tíma filmum. Við sjáum þessar skemmtilegu flugeldarákir í myndunum og þær stafa af því að ljósmyndarinn verður að vera með myndavélina á þrífót og ljósopið er opið nokkuð lengi. Mörgum finnst gamlar svarthvítar áramótamyndir flottari en þær sem eru í lit, en hér kemur ein sem meistari Steingrímur tók og er hún einna helst líkust abstrakt listaverki.

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson .

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Steingrímur Kristinsson.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.