Annaðhvert ár auglýsir félagsmálaráð Húnaþings vestra eftir tilnefningum til samfélagsviðurkenninga. Gefst íbúum þá tækifæri til að senda inn tilnefningar um aðila sem þeir telja að hafi látið gott af sér leiða í þágu samfélagsins í Húnaþingi vestra. Á dögunum var auglýst eftir tilnefningum og bárust nokkrar. Félagsmálaráð hefur yfirfarið tilnefningar og á fundi ráðsins þann 24. september var eftirfarandi aðilum veitt samfélagsviðurkenning:

Kristín Guðmundsdóttir og Ólöf Sigurbjartsdóttir hljóta samfélagsviðurkenningu fyrir að koma í veg fyrir útbreiðslu skógarkerfils. Ráðinu barst afar skemmtileg nafnlaus tilnefning um það að þær stöllum hafi í nokkur ár vaktað svæðið með veginum frá Gljúfurá að Reyðarlæk og ef einhversstaðar sést planta er hún tekinn upp með rótum og henni komið fyrir kattarnef. 

Sigurður Líndal hlýtur samfélagsviðurkenningu fyrir ötult og óeigingjarn starf sem hann hefur unnið fyrir Menningarfélag Húnaþings vestra og þá sérstaklega fyrir að koma á fót Dansskóla menningarfélagsins og allt sitt starf fyrir hann. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sá frábæri árangur sem krakkarnir í Dansskólanum náðu fyrr á árinu þegar þau unnu sér inn keppnisrétt á heimsmeistaramótinu í dansi sem fór fram í Burgos á Spáni í sumar. Sigurður stýrði fjáröflun og hélt utan um allt skipulag ferðarinnar.

Kathrin Schmitt hlýtur viðurkenningu fyrir sitt óeigingjarna starf í þágu barna og ungmenna. Var hún tilnefnd vegna hestafimleikanna sem hún heldur utan um ásamt því að sjá um þjálfun á þeim. Kathrin hefur sérstakt lag á börnum, hún er skipulögð, ljúf, dugleg og öguð en jafnframt er hún ákaflega sanngjörn og börnin laðast að henni og líta upp til hennar. Hún hefur skipulagt og haldið utan um hestafimleikana í mörg ár, farið með krakkana á sýningar bæði hér innanlands og erlendis og er óhætt að segja að Kathrin sé full af eldmóði og metnaði.

Handhöfum samfélagsviðurkenninganna er óskað innilega til hamingju og færðar bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag í þágu samfélagsins. 

Á forsíðumynd eru vinningshafarnir ásamt Gerði Rósu Sigurðardóttur formanni félagsmálaráðs, frá vinstri, Gerður Rósa, Kathrin Schmitt, Kristín Guðmundsdóttir, Ólöf Sigurbjartsdóttir og Sigurður Líndal.